Þrenn íslensk verðlaun á NM

Norðurlandamótið í frjálsíþróttum fór fram í Finnlandi í dag þar sem Íslendingar áttu níu keppendur. Ísland tefldi fram sameiginlegu liði með Danmörku gegn liðum frá Svíþjóð, Noregi og Finnlandi. Þrír íslenskir keppendur unnu sér inn verðlaun á mótinu, tvö silfur og eitt brons.

Hlynur Andrésson var nálægt því að vinna til gullverðlauna í 3000 metra hlaupi þegar hann koma annar í mark. Tími hans í hlaupinu var 8:01,20 mínútur og var hann aðeins 13/100 úr sekúndu frá fyrsta sætinu. Hlynur á Íslandsmetið í greininni og er það 7:59,11 mínútur.

Kristján Viggó Sigfinnsson vann einnig til silfurverðlauna í dag. Það gerði hann í hástökki þegar hann stökk yfir 2,11 metra. Sigurvegarinn kom frá Svíþjóð og stökk hann 2,13 metra sem er það sama og Kristján Viggó á best. Kristján varð síðasta sumar Norðurlandameistari 19 ára og yngri í greininni og sannaði hann í dag að hann er á meðal fremstu hástökkvara á Norðurlöndunum þrátt fyrir að vera einungis á 17. ári.

Bronsverðlaun Íslands fékk Guðni Valur Guðnason í kúluvarpi. Hann kastaði lengst 18,31 metra sem er einungis 12 sentimetrum frá hans besta árangri frá því á RIG síðustu helgi. Í kvenna keppninni keppti Ásdís Hjálmsdóttir fyrir Íslands hönd. Hún kastaði lengst 15,59 metra og varð í fimmta sæti.

Hafdís Sigurðardóttir varð fjórða í langstökki með stökk uppá 5,99 metra en sigurstökkið átti hin sænska Erica Jarder og var það 6,10 metrar. Eva María Baldursdóttir varð sjöunda í hástökki þegar hún stökk yfir 1,70 metra. Hún reyndi í kjölfarið við 1,75 metra en felldi þá hæð þrisvar sinnum. Sigurvegarinn var Tonja Angelsen frá Noregi og stökk hún 1,88 metra.

Ari Bragi Kárason keppti í 200 metra hlaupi þar sem hann varð sjötti á 22,04 sekúndum. Kormákur Ari Hafliðason og Þórdís Eva Steinsdóttir urðu bæði í sjöunda sæti í 400 metra hlaupi. Tími Kormáks var 48,77 sekúndur og Þórdís Eva varð á 55,89 sekúndum. Þau voru bæði að hlaupa á sínum besta tíma í ár.

Hér má sjá öll úrslit mótsins.

Lið Íslands á NM 2020 í Helsinki