Þrjú íslensk gull á kastmóti í Svíþjóð

Um helgina fór fram kastmót í Bottnaryd í Svíþjóð. Mótið hefur verið haldið frá 1999 og fór því fram í 21. skiptið í ár. Á meðal keppenda voru þrír af bestu kösturum Íslands. Spjótkastararnir Ásdís Hjálmsdóttir og Dagbjartur Daði Jónsson og sleggjukastarinn Hilmar Örn Jónsson. Mikið af sterkum keppendum keppti á mótinu og í gær kastaði sænski kringlukastarinn Daniel Ståhl lengsta kast greinarinnar í 11 ár.

Okkar fólk náði einnig góðum árangri því þau fengu öll gullverðlaun í sínum greinum. Ásdís Hjálmsdóttir, Ólympíufari og Íslandsmethafi, sigraði í spjótkasti með því að kasta 58,53 metra. Það er hennar ársbesti árangur. Íslandsmet hennar í greininni er 63,43 metrar.

Ásdís Hjálmsdóttir

Hilmar Örn Jónsson sigraði í sleggjukasti með 73,96 metra kast. Hilmar er Íslandsmethafinn í sleggjukasti en hann bætti ellefu ára gamalt Íslandsmet Bergs Inga Péturssonar í vor þegar hann kastaði 75,26 metra.

Hilmar Örn Jónsson

Dagbjartur Daði Jónsson hefur átt frábært sumar og hélt uppteknum hætti í Svíþjóð. Dagbjartur sigraði í spjótkasti á mótinu og bætti um leið eigið aldursflokkamet í flokki pilta 20-22 ára. Dagbjartur kastaði lengst 78,30 metra og átti góða kastseríu þar sem fjögur köst flugu yfir 75 metra. Fyrra aldursflokkamet Dagbjarts var frá því á Smáþjóðaleikunum fyrr í sumar þegar hann kastaði 77,58 metra.

Dagbjartur Daði Jónsson