Þrjú Íslandsmet á þremur mánuðum

Baldvin Þór Magnússon er að gera stórkostlega hluti í Bandaríkjunum um þessar mundir en hann var að setja sitt þriðja Íslandsmet á árinu. Á laugardagskvöld sló hann 39 ára gamalt Íslandsmet Jóns Diðrikssonar í 1500 metra hlaupi á Rick Erdmann Twilight mótinu í Richmond, Kentucky. Hann kom í mark á 3:40,74 mínútum.

Hann hefur nú sett þrjú Íslandsmet á síðustu þremur mánuðum. Hann setti Íslandsmet í 3000 metra hlaupi innanhúss á Bandaríska Háskólameistaramótinu og hafnaði þar í sjöunda sæti. Hann kom í mark á 7:53,92 mínútum. Hann fékk því titilinn All American og ætlar hann að freista þess að ná þeim titli einnig utanhúss.

Á utanhúss tímabilinu er hann búinn að bæta Íslandsmetið í 5000 og 1500 metra hlaupi. Þann 26. mars bætti hann tveggja ára met Hlyns Andréssonar í 5000 metra hlaupi um rúmar tólf sekúndur og kom í mark á 13:45,66 mínútum.

Ég trúi að ég eigi meira inni í 5000m kannski svona í kringum 13.35. Það var ekki alveg fullkomið hlaup, þurfti að leiða góðan part, byrjaði frekar hægt og svo datt ég líka í sundur seinustu 150 metrana og svo var það líka snemma á tímabilinu.

Þessi met eru jafnframt aldursflokkamet í 20-22 ára flokki, sem og lágmörk fyrir EM U23. Baldvin sagði í viðtali við FRÍ að það væri gaman að fá verðlaun á því móti en hann er bæði með lágmark í 1500 og 5000 metra hlaupi.

Baldvin er fæddur árið 1999 og uppalinn á Akureyri. Hann flutti til Englands þegar hann var fimm ára og byrjaði að æfa frjálsar þegar hann var tólf ára. Hann keppir nú fyrir Eastern-Michigan háskólann í Bandaríkjunum sem er sami skóli og Hlynur Andrésson útskrifaðist frá. 

Næst á dagskrá hjá Baldvini er MAC Outdoor Championships í Oxford, Ohio sem fer fram eftir tvær vikur.