Þrjár á HM unglinga í Moncton í Kanada sem hefst í dag

Þær sem taka þátt í mótinu eru:
·         Helga Margrét Þorsteinsdóttir, Ármanni, keppir í sjöþraut. Helga Margrét hefur sannað sig sem besta sjöþrautarkona landsins og á fimm bestu afrekin í sjöþraut kvenna frá upphafi. Íslandsmet hennar er 5.875 stig frá því í fyrra, en hún fékk 5.757 stig í fyrstu sjöþraut sinni í ár. Þjálfari Helgu er Stefán Jóhannsson.
·         Hulda Þorsteinsdóttir, ÍR, keppir í stangarstökki. Hulda er mjög efnileg og hefur sýnt miklar framfarir í stangarstökkinu. Besti árangur hennar, 3,95 m, fyrr á þessu ári er 3. besti árangur íslenskrar konu í greininni. Þjálfari Huldu er Þórey Edda Elísdóttir.
·         Sveinbjörg Zophoníasdóttir, USÚ, keppir í langstökki. Hún náði besta árangri sínum, 6,10 m, í Evrópubikarkeppninni í fjölþrautum í Tel-Aviv um miðjan júní sl. og bætti fyrri árangur sinn um 33 sm. Þetta er 4. besti árangur kvenna í greininni frá upphafi. Sveinbjörg hefur einnig bætt árangur sinn í sjöþraut um 400 stig frá því í fyrra, er hún náði í 5.123 stig í Tel-Aviv, sem er 6. besti árangur frá upphafi í greininni. Þjálfari hennar er Guðrún Ingólfsdóttir.
 
Þær hefja allar keppni sama morguninn, fimmtudaginn 22. júlí. Hulda hefur keppni kl. 12:20 (allar tímasetningar m.v. íslenskan tíma). Kl. 14:15 hefst keppni í forkeppni langstökkins. Sjöþrautin hefst kl. 13:50 og lýkur keppni fyrri dags um kl. 21:30. Keppni á síðari degi sjöþrautarinnar hefst kl. 15:20. Síðasta grein sjöþrautarinnar, 800 m hlaupið, hefst kl. 23:40 á fimmtudagskvöldið og ættu úrslit að liggja fyrir um miðnætti.
Fylgst verður með mótinu á heimasíðu FRÍ og birtar fréttir af árangri þeirra. Tímaseðil mótsins og frekari upplýsingar er hægt að sjá hér á heimasíðu IAAF.
 
Fararstjóri er Guðrún Ingólfsdóttir. Hún er með símanúmerið 669-1863.

FRÍ Author