Dagana 19.-27. ágúst fer fram Heimsmeistaramótið í Búdapest í Ungverjalandi. Þrír Íslendingar munu keppa á mótinu og keppa þau öll í kastgreinum. Guðni Valur Guðnason (ÍR) í kringlukasti, Hilmar Örn Jónsson (FH) í sleggjukasti og Erna Sóley Gunnarsdóttir (ÍR) í kúluvarpi. Hilmar er að fara á sitt þriðja heimsmeitaramót en hann keppti árið 2017 í London og í Eugene á síðasta ári. Guðni er að fara á sitt annað heimsmeistaramót en hann keppti í Doha árið 2019. Erna er hinsvegar að fara á sitt fyrsta heimsmeistaramót en hún ásamt Guðna og Hilmari, kepptu á EM í Munchen á síðasta ári.
„Það er sérstaklega ánægjulegt að ná inn þremur keppendum á Heimsmeistaramótið að þessu sinni, síðustu tvö HM hefur einn keppandi náð tilskildum árangri og ljóst að við erum á uppleið. Öll eru þau á góðri vegferð og sem kastarar öll ung og eiga mikið eftir af ferlinum. Við hjá FRÍ erum fyrst og fremst stolt af árangrinum á árinu hingað til og þessi þrjú eiga stóran þátt í því. Við nálgumst þetta verkefni með bjartsýni, eftirvæntingu og skýrum markmiðum,“ segir Guðmundur Karlsson, Afreks- og framkvæmastjóri FRÍ.
Guðni Valur og Hilmar Örn kasta í undankeppni í kringlu- og sleggjukasti á fyrsta keppnisdeginum, laugardeginum 19. ágúst. Úrslitakeppnin fer fram á sunnudeginum í sleggjukasti en á mánudeginum í kringlukasti. Erna Sóley kastar í undankeppni í kúluvarpi á áttunda keppnisdegi, laugardagurinn 26. ágúst. Úrslitin fara fram sama dag.
Heimasíðu mótsins má finna hér.
Það eru ennþá lausir miðar á Heimsmeistaramótið. Hér er hægt finna allar helstu upplýsingar um miðakaup, skoða pakkatilboð og sjá hápunkta hvers dag fyrir sig.