Þrír Íslendingar á EM U23

Evrópumeistaramót U23 í frjálsíþróttum fer fram í Gävle í Svíþjóð 11.-14. júlí. Keppendur á mótinu eru allir á aldrinum 20-22 ára. Það er síðasti aldursflokkurinn fyrir fullorðinsflokk og því má búast við sterku móti þar sem á meðal keppenda eru verðlaunahafar frá EM fullorðinna í Berlín síðasta sumar. Alls eru keppendur 1105 talsins frá 49 löndum. Þar á meðal eru þrír íslenskir keppendur. Andrea Kolbeinsdóttir, Dagbjartur Daði Jónsson og Irma Gunnarsdóttir. Thelma Lind Kristjánsdóttir, Íslandsmethafi í kringlukasti, hafði einnig náð lágmarki á mótið en þurfti því miður að hætta við þátttöku vegna meiðsla.

Andrea Kolbeinsdóttir keppir í 10.000 metra hlaupi. Hún náði einnig lágmarki á mótið í 3.000 metra hindrunarhlaupi en mun einungis keppa í 10.000 metra hlaupinu. Andrea á þónokkur aldursflokkamet í langhlaupum bæði á braut og í götuhlaupum. Hún á einnig eitt Íslandsmet en það er í 3.000 metra hindrunarhlaupi sem hún setti á HM U20 Í Finnlandi síðasta sumar. 10.000 metra hlaupi fer fram 12. júlí.

Andrea Kolbeinsdóttir

Dagbjartur Daði Jónsson keppir í spjótkasti. Dagbartur hefur verið í frábæru formi í sumar og verið stöðugur í löngum köstum. Hann byrjaði sumarið frábærlega með því að sigra á Smáþjóðaleikunum út í Svartfjallalandi og bæta um leið aldursflokkamet 20-22 ára. Hann bætti met sitt svo enn frekar og sigraði á kastmóti í Svíþjóð í lok júní með því að kasta 78,30 metra. Dagbjartur á lengsta kast ársins á Íslandi og er í áttunda sæti Evrópulistans undir 23 ára. Undankeppni spjótkastsins fer fram 11. júlí og úrslitin 13. júlí.

Dagbjartur Daði Jónsson

Irma Gunnarsdóttir keppir í sjöþraut. Besti árangur hennar er 5401 stig sem gerði hana að Norðurlandameistara undir 23 ára síðasta sumar. Hún hefur verið ein fremsta frjálsíþróttakona landsins síðustu ár og er hún sjötta besta sjöþrauta kona Íslands frá upphafi. Sjöþrautin fer fram 11. og 12. júlí.

Irma Gunnarsdóttir

Þeir sem vilja kynna sér mótið betur geta gert það á heimsíðu mótsins sem má finna hér.