Þrír Íslendingar á EM U20 ára

Evrópumeistaramót undir 20 ára fer fram í Tallinn dagana 15.-18. júlí og eru þrír Íslendingar skráðir til leiks. 

Eva María Baldursdóttir keppir í undankeppni í hástökki á föstudag. Hún á best 1,81 metra og hefur stokkið hæst 1,78 metra í ár. Eva hefur tekið þátt í mörgum landsliðs verkefnum í bæði unglinga og í fullorðins flokki. Hún á einnig þrjú aldursflokkamet bæði innan og utanhúss í greininni. Undankeppnin í hástökki hefst klukkan 7:50.

Kristján Viggó Sigfinnsson keppir í undankeppni í hástökki á fimmtudag. Hann á best 2,18 sem hann stökk á Stórmóti ÍR fyrr á árinu. Kristján átti þriðja hæsta stökkið innanhúss í Evrópu í U20 ára flokki og er skráður með fjórða hæsta stökkið í keppninni. Hann á einnig níu aldursflokkamet bæði innan og utanhúss í greininni. Undankeppnin í hástökki hefst klukkan 12:25.

Elísabet Rut Rúnarsdóttir keppir í undankeppni í sleggjukasti á föstudag. Elísabet á best 64,39 metra sem er einnig Íslandsmetið í greininni semer jafnframt aldursflokkamet í 18-19 ára og 20-22 ára flokki. Hún er með fjórða lengsta kastið í Evrópu í U20 ára flokki í ár og fimmta lengsta kastið í keppninni. Undankeppnin í sleggjukasti hefst á föstudag á milli klukkan sjö og hálf níu um morgun. 

Allar tímasettningar eru á íslenskum tíma.

Hægt er að fylgjast með úrslitum og sjátímaseðil hér. Hægt er að fylgjast með streymi hér.