Þrír dagar í HM í Búdapest

Penni

2

min lestur

Fólk í frétt

Deila

Þrír dagar í HM í Búdapest

Það eru aðeins þrír dagar í að keppni hefjist á Heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum sem fram fer í Búdapest í Ungverjalandi og erum við með þrjá keppendur á mótinu í ár. Hilmar Örn Jónsson (FH) keppir í sleggjukasti og Guðni Valur Guðnason (ÍR) keppir í kringlukasti á fyrsta keppnisdeginum sem er á laugardaginn 19. ágúst.

Hilmar er búinn að kasta lengst 74,77m í ár sem hann gerði á Bottnarydskastet í Bottnaryd í Svíþjóð í júlí. Hilmar hefur verið að keppa útum allan heim í sumar og keppti meðal annars á sterku móti í Kenýa þar sem hann varð fjórði með 74,11m. Hann varð svo annar á Norðurlandameistarmótinu sem fram fór í Kaupmannahöfn í lok maí. Á síðasta ári komst Hilmar í úrslit á EM í Munchen og kastaði þá sitt annað lengsta kast á ferlinum, 76,33m. Íslandsmet Hilmars í greininni er 77,10m sett í Kaplakrika í ágúst 2020. Hilmar er að fara á sitt þriðja heimsmeistaramót en hann keppti í London árið 2017 og í Eugene á síðasta ári.

Undankeppnin í sleggjukasti fer fram í fyrsta keppnishluta að morgni 19. ágúst, komist hann í úrslit verða þau sunnudagskvöldið 20. ágúst.

Guðni hefur kastað lengst 64,80m í ár og var það á Vormóti ÍR sem fram fór á ÍR-vellinum í júní. Guðni varð Norðurlandameistari í kringlukasti og varð þriðji á Evrópubikarkeppni landsliða í júní. Líkt og Hilmar komast Guðni áfram í úrslit á EM í Munchen á síðasta ári. Íslandsmet Guðna er 69,35m sem hann setti í september árið 2020. Guðni er að keppa á sínu öðru heimsmeistaramóti en hann keppti í Doha árið 2019.

Undankeppnin í kringlukasti fer fram að kvöldi laugardagsins 19. ágúst og komist hann í úrslit eru þau á mánudagskvöldið 21. ágúst.

Erna Sóley Gunnarsdóttir (ÍR) er að fara á sitt fyrsta heimsmeistaramót og keppir hún í kúluvarpi, laugardaginn 26. ágúst.

Erna er búin að eiga stórkostlegt tímabil í Bandaríkjunum og var hún að útskrifast í vor. Erna stórbætti eigið Íslandsmet innanhúss í vetur. Hún kastaði 17,92m sem á svæðismeistaramóti sínu innanhúss í febrúar og varð um leið svæðismeistari. Hún varð síðan sjöunda á bandaríska háskólameistaramótinu innanhúss í mars. Erna bætti einnig Íslandsmetið sitt utanhúss á heimamóti í Texas þar sem hún kastaði 17,39m. Erna keppti á sínu fyrsta stórmóti í fullorðinsflokki á síðasta ári þegar hún keppti á EM í Munchen. Erna keppti á þónokkrum stórmótum í unglinga- og ungmennaflokkum og vann meðal annars til bronsverðlauna á EM U20 árið 2019.

Undankeppnin í kúluvarpi kvenna fer fram laugardagsmorguninn 26. ágúst. Úrslit kúluvarpsins eru svo sama kvöld.

Tímaseðil mótsins má finna hér og þar birtast einnig keppendalistar og úrslit. Heimasíðu mótsins má finna hér.

Sýnt verður beint frá öllum keppnishlutum á rásum RÚV.

Penni

2

min lestur

Fólk í frétt

Deila

Þrír dagar í HM í Búdapest

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Search

Dæmi um leit