Þorkell Stefánsson nýr Verkefnastjóri Boðhlaupsverkefnis FRÍ

Þorkell Stefánsson hefur ákveðið að takast á við Boðhlaupsverkefni FRÍ og koma þar með af stað alvöru umgjörð um verkefni sem sinnt hefur verið lítið en hefur mikla framtíðarmöguleika.

Þorkell er 33 ára frá Hólmavík og byrjaði seint að æfa frjálsar eða fyrst um 24 ára aldur. Hann hefur verið að þjálfa síðan  2012 og þá aðallega frjálsíþrótta- og körfuboltafólk og var m.a. styrktarþjálfari mfl. kvenna sem varð bikarmeistari 2014 í körfubolta.

Kappinn er að vinna hjá Maskínu rannsóknum í gagnagreiningu. Þorkell er með BS og MS í ferðamálafræði og viðbótardiplómu í rannsóknaraðferðum. Einnig sér Þorkell um Silfrið og hefur vakið athygli fyrir góð vinnubrögð og metnað.

Innan FRÍ eru mjög frambærilegir spretthlauparar og þá bæði í hópi unglinga og fullorðinna og ekki er óraunhæft að sveit eða sveitir nái lágmörkum og keppi undir flaggi Íslands  á stórmótum framtíðarinnar.

Þetta er mikill fengur fyrir FRÍ þó aðeins sé um hlutastarf að ræða þá er stefnt hátt.

Bjóðum Þorkel hjartanlega velkominn!