Þórey Edda stekkur í Peking í nótt

Þórey Edda Elísdóttir stangarstökkvari úr FH keppir í undankeppni stangarstökksins í Peking í nótt.
36 konur eru skráðar til leiks í Peking og verður keppt í tveimur hópum á sama tíma og hefst keppni kl. 02:10 að íslenskum tíma. Þórey Edda stekkur í B-hópi og er 17 í stökkröð, en 18 keppa í hvorum hópi.
 
Búið er að gefa út að til þess að tryggja sér sæti í úrslitum þurfi að stökkva yfir 4,60 metra, en það er sami árangur og Íslands- og Norðurlandamet Þóreyjar frá árinu 2004. Þórey hefur stokkið yfir 4,30 metra best á þessu ári (Bikarkeppni FRÍ 5. júlí sl.), en hún stökk 4,40m best á sl. ári. 14 konur af þeim sem keppa í nótt eiga betri árangur en Þórey og hafa stokkið best 4,63-5,04 metra.
 
Af þessum keppendum eiga 30 keppendur betri árangur en Þórey á þessu ári, þrjár hafa stokkið jafn hátt og tvær eiga lakari skáðan árangur en Þórey. Yelena Isinbaeva keppir í A-hópi, en heimsmet hennar í greininni frá því fyrr í sumar er 5,04 metrar, en reikna má með að hún muni reyna að bæta það enn frekar í úrslitakeppninni, sem fram fer á mánudaginn.
 
Sjá nánar: www.iaaf.org

FRÍ Author