Þórey Edda Elísdóttir leggur stöngina á hilluna

Þórey Edda Elísdóttir stangarstökkvari úr FH hefur tekið þá ákvörðun að hætta afreksferli sínum í stangarstökki.
Þórey hefur verið okkar fremsta frjálsíþróttakona á síðustu árum og náði frábærum árangri á ferlinum.
Hæðst ber 5. sæti á Ólympíuleikunum í Aþenu árið 2004, þegar hún stökk 4,55 metra.
Það sama ár náði Þórey Edda sínum besta árangri, 4,60 metrum, en sá árangur hennar er Íslands- og Norðurlandamet í greininni. Annar besti árangur Þóreyjar á stórmóti er 6. sæti á Heimsmeistaramótinu í Edmonton árið 2001. Þórey lenti í 9.sæti á HM innanhúss árin 1999 og 2003 og komst í úrslit á HM utanhúss í París árið 2003. Einnig komst hún í úrstlit á EM 2002 utanhúss.
Ekki má svo gleyma að hún varð amerískur háskólameistari innanhúss árið 2001, en á því sama móti reyndi Þórey við heimsmet í stangarstökki 4,71 metra og var hársbreidd frá því að fara yfir þá hæð.
Á árunum 2001-2005 var Þórey á meðal fremstu stangarstökkvara kvenna í heiminum.
 
Frjálsíþróttasambandið þakkar Þóreyju Eddu fyrir sitt mikla framlag fyrir frjálsíþróttahreyfinguna á undanförnum árum og óskar henni velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi, en hún starfar nú á verkfræðistofunni VSB í Hafnarfirði. Auk þess sem hún hefur tekið að sér að þjálfa nokkra efnilega og áhugasama stangarstökkvara úr félögum hér á höfuðborgarsvæðinu.
 

FRÍ Author