Þórdís útnefnd af EAA fyrir framúrskarandi framlag til frjálsíþrótta

Frjálsíþróttasamband Evrópu (EAA) hefur útnefnt Þórdísi Gísladóttur til viðurkenningar fyrir framúrskarandi framlag konu í frjálsíþróttum í Evrópu. Þessi viðurkenning (The European Athletics Women’s Leadership Award) er veitt til að vekja athygli á hinu veigamikla framlagi kvenna til íþróttarinnar, en hlutur kvenna í stjórnum og ráðum er oft minni en framlag þeirra segir til um. Þessi viðurkenning er ætluð þeim sem hafa skarað fram úr á fleiri en einu sviði s.s. keppandi, þjálfari, sjálfboðaliði eða leiðtogi.

Ferill Þórdísar með landsliði Íslands er einkar farsæll og langur. Hún keppti í alls 31 landskeppni á árunum 1975–1999 þar sem hún var fyrirliði liðsins árin 1984 – 1999 og á engin önnur íslensk frjálsíþróttakona slíkan feril að baki.  Þórdís keppti tvívegis á Ólympíuleikum, fyrst árið 1976 í Montreal í Kanada þá aðeins 16 ára gömul og aftur árið 1984 í Los Angeles. Hún keppti alls sex sinnum á Heimsmeistaramótum, 4 sinnum innanhúss og tvívegis utanhúss auk tvívegis á Evrópumeistaramótum. Ótalin eru þau skipti sem Þórdís varð Íslands- og Bikarmeistari í gegnum tíðina, einnig varð hún skoskur og sænskur meistari og var í úrvalsliði Norðurlanda gegn Bandaríkjunum árið 1983.

Þórdís stundaði nám í íþrótta- og heilsufræði við Alabamaháskóla í Bandríkjunum og keppti með skólaliði Alabamaháskóla á árunum 1981 til 1985. Varð hún bandarískur háskólameistari þrívegis, tvisvar utanhúss, 1982 og 1983 og innanhúss árið 1983.

Þórdís hefur einnig lagt fram drjúgan skerf í frjálsíþróttum sem þjálfari, verið virk í stefnumótun í þjálfun, starfað sjálfboðaliði á mótum á vegum hreyfingarinnar auk þess sem hún hefur starfað að félagsmálum. Hún á t.d. sæti í stjórn Íþróttabandalags Reykjvíkur. Þá hefur Þórdís líka kennt íþróttir, á öllum sti ásamt því að leggja mikla áherslu á kynningu á frjálsíþróttum innan menntakerfinsins. Þórdís er nú sviðsstjóri íþróttafræðasviðs Háskólans í Reykjavík

Þórdís fær viðurkenninguna afhenta við hátíðlega athöfn laugardaginn 17. okt. nk. sem haldin er í tengslum við Mótaþing EAA í Búdapest. EAA leitaði til allra 50 sambandsaðila sinna eftir tilnefningum og var Þórdís tilnefnd að hálfu FRÍ.

FRÍ Author