Þórdís Gísladóttir framúrskarandi fyrir Íslands hönd

Um er að ræða sérstaka viðurkenningu ætlaða konum sem hafa skarað fram úr á sviði frjálsíþrótta, hvort sem er keppni, þjálfum eða á öðrum sviðum, einu eða fleiri. Eitt markmiða með þessari viðurkenningu er að vekja athygli á hinu mikilvæga framlagi almennra kvenleiðtoga innan hreyfingarinnar. Úrslit á valinu verður kynnt þann 17. október næstkomandi, á árlegum fundi Evrópska frjálsíþróttasambandsins, í Budapest að þessu sinni.
 
Þórdís byrjaði snemma að æfa og keppa í frjálsum íþróttum. Hún á enn Íslandsmetið í hástökki kvenna utanhúss, 1,88 m setti í Grimsby 19. ágúst árið 1990. Hún á einnig Íslandsmetið innanhúss, 1.88m, sett í Pontiac í Michigan 12. mars 1983. Hún hefur átt Íslandsmetið í hástökki kvenna óslitið frá árinu 1976 og til dagsins í dag.
 
Þórdís stundaði nám í íþrótta- og heilsufræði við Alabamaháskóla í Bandríkjunum og keppti með skólaliði Alabamaháskóla á árunum 1981 til 1985. Varð hún bandarískur háskólameistari þrívegis, tvisvar utanhúss, 1982 og 1983 og innanhúss árið 1983. Þetta eru mikil afrek og meira en margir átta sig á. Ótalin eru þau skipti sem Þórdís varð Íslands- og Bikarmeistari í gegnum tíðina, einnig varð hún skoskur og sænskur meistari og var í úrvalsliði Norðurlanda gegn Bandaríkjunum árið 1983 en örfáum Íslendingum hefur hlotnast sá heiður.
 
 
Þórdís keppti tvívegis á Ólympíuleikum, fyrst árið 1976 í Montreal í Kanada þá aðeins 16 ára gömul og aftur árið 1984 í Los Angeles. Hún keppti alls sex sinnum á Heimsmeistaramótum, 4 sinnum innanhúss (1983, 1987, 1991, 1993) og tvívegis utanhúss (1991, 1993) auk eins Evrópumeistaramóts utanhúss og eins innanhúss árin 1982 og 1990.
Ferill Þórdísar með landsliði Íslands er einkar farsæll og langur. Hún keppti í alls 31 landskeppni á árunum 1975-1999 þar sem hún var fyrirliði liðsins árin 1984 – 1999 og á engin íslensk frjálsíþróttakona slíkan feril að baki.
 
 
Þórdís hefur einnig lagt fram drjúgan skerf í frjálsíþróttum sem þjálfari, verið virk í stefnumótun í þjálfun, starfað sjálfboðaliði á mótum á vegum hreyfingarinnar auk þess sem hún hefur starfað að félagsmálum. Hún á t.d. sæti í stjórn Íþróttabandalags Reykjvíkur. Þá hefur Þórdís líka kennt íþróttir, bæði á framhalds- og háskólastigi ásamt því að leggja mikla áherslu á kynningu á frjálsíþróttum innan menntakerfinsins.

FRÍ Author