Stjórn FRÍ sem kjörin var á Sauðárkróki í liðnum mánuði hefur nú skipt með sér verkum. Á þingi var Freyr Ólafsson kjörinn formaður en það er stjórnar að skipta með sér verkum að öðru leyti. Á fyrsta fundi sínum kaus stjórn FRÍ Sonju Sif Jóhannsdóttur sem varaformann, Auði Árnadóttur gjaldkera, Hauk Björnsson ritara og Svein Margeirsson meðstjórnanda. Auk þeirra sitja í varastjórn þau Rannveig Oddsdóttir, Björgvin Víkingsson, Hjördís Ólafsdóttir, Hallgrímur Egilsson og Hafdís Ósk Pétursdóttir.
Stjórnin er því skipuð nú nýju og fersku fólki. Sonja Sif og Sveinn koma ný inn í aðalstjórn og Hallgrímur og Hafdís Ósk ný inn í varastjórn. Öll hafa þau reynslu af ýmsum störfum innan hreyfingarinnar. Nefna má að Sonja Sif hefur áður setið í stjórn og varastjórn FRÍ, auk þess að koma að öflugu uppbyggingarstarfi UFA og UFA Eyrarskokks. Þá er Sonja Sif enn virk í keppni í utanvega- og götuhlaupum. Sveinn Margeirsson er fyrrum Íslandsmethafi í 3000m hindrunarhlaupi og á besta árangur sem náðst hefur í 2000m hindrunarhlaup en auk þess kom hann að endurvakningu frjálsíþróttadeildar KR og starfaði sem formaður deildarinnar um skeið.