Tækifæri gegn sterkustu hlaupurum Evrópu

Hlynur Andrésson verður meðal keppenda í 3000 metra hlaupi á EM í frjálsíþróttum sem fram fer í Glasgow 1.-3. mars. Hlynur átti frábært ár í fyrra þar sem hann bætti fjögur Íslandsmet og keppti á EM í víðavangshlaupum. Hann hefur haldið uppteknum hætti í ár þar sem hann sigraði á Reykjavík International Games í 1500 metra hlaupi og bætt Íslandsmetið og náð lágmarki á EM í 3000 metra hlaupi.

Markmiðið að bæta sig á hverju tímabili

Hlynur segist ekki hafa stefnt sérstaklega á EM heldur einbeitir hann sér frekar að því að bæta sig á hverju tímabili. Ef bætingarnar eru nógu góðar fyrir lágmörk þá lítur hann á það sem plús. Hlynur var vel undir lágmarkinu sem var 8:05 mínútur en hann hljóp á 7:59,11 mínútum. Rúmri viku áður keppti hann á sterku móti í Belgíu þar sem hann sigraði á tímanum 8:08,24 mínútum. „Hlaupið í Belgíu var mjög skrítið. Á blaði var ég med 13. besta tímann. Hérinn var hægur og hætti snemma og enginn annar vildi keyra upp hraðann, þá var ég ekki alveg með sjálfstraustið til að keyra á það sjálfur því ég hélt að samkeppnin væri mun sterkari en hún var í raun og veru. Eftir að hlaupið varð taktískt og ég vann, áttaði ég mig á hversu mikil mistök það hafði verið að keyra ekki upp hraðann bara sjálfur.“ Þó svo Hlynur hafi viljað hlaupa hraðar í Belgíu þá var hann viss um að ná lágmarkinu þó svo að mótið í Belgíu hafi ekki verið eins og hann vonaðist eftir.

Tækifæri til að hlaupa gegn bestu hlaupurum í Evrópu

Hlynur vill alltaf fá sem bestu samkeppni og segir hann að EM sé mjög gott tækifæri til að spreyta sig gegn bestu hlaupurum í Evrópu. „Að keppa á stórmóti getur verið erfitt andlega og kannski sérstaklega í hlaupagreinum því að hlaupið tekur átta mínútur og þá ert allan tímann í kringum hlaupara sem eru rosa nöfn í hlaupaheiminum og hefur verið að horfa á í sjónvarpinu. Það er því auðvelt að detta í vitlaust hugarfar og fá efasemdir um hvort þú eigir nokkuð heima þarna með þessum gæjum.“ Hlynur er hins vegar búinn að öðlast dýrmæta reynslu frá öðrum stórmótum sem hann hefur keppt á í gegnum tíðina eins og EM innanhúss í Belgrad 2017, NCAA meistaramótinu í víðavangshlaupum og frjálsum og EM í víðavangshlaupum og er því mun sjálfsöruggari en áður. Hann segir að það hjálpi honum vonandi að vera andlega reiðubúinn á föstudaginn.

Markmiðið að keppa vel

Hlynur segir að markmið sitt á mótinu sé að keppa vel. Ef hlaupið verður hratt þá vonast hann eftir persónulegri bætingu sem vonandi verður nógu gott til þess að komast í úrslit. Aðspurður um undirbúning dagana fyrir keppni segist hana ekki hafa neina ákveðna rútínu en mikilvægt sé að vera vel hvíldur, borða rétt og sofa nóg. Hlynur hefur verið að hlaupa vel á síðustu vikum og er formið eins gott og hann geti vonast eftir. „Ég er virkilega búnn að gera allt sem ég get til þess að undirbúa mig og vona að ég geti sýnt það á föstudaginn.

Fjölhæfur hlaupari

Hlynur á þónokkur Íslandsmet allt frá því að hafa hlaupið hraðasta 1500 metra hlaupið með rafrænni tímatöku upp í það að eiga Íslandsmetið í 10 km hlaupi. Í janúar var Hlynur aðeins 0,97 sekúndum frá lágmarkinu fyrir EM í 1500 metra hlaupi og því hefði hann mögulega getað náð lágmarki fyrir EM í fleiri en einni grein. „. Ég held samt að  3000m sé mín grein þannig að ég var ekkert að reyna við 1500m aftur. Svo er svo oft á stórmótum að 1500m breytast i 800m í taktískum hlaupum og það er ekki eitthvað sem ég er búinn að vera undirbúa fyrir.“

Hlynur hleypur föstudaginn 1. mars klukkan 12:30 og verður sýnt frá því í beinni útsendingu á RÚV. Takist Hlyni að komast í úrslit verða þau á laugardeginum klukkan 19:47.