Á morgun, laugardaginn 6. maí fer fram svæðismeistaramót Atlantic 10 conference þar sem Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir (ÍR) ætlar að freista þess að verja svæðismeistaratitil sinn. Guðrún er búin að eiga stórkostlegt tímabil en bætingarnar á háskólatímabilinu í Bandaríkjunum skila henni í annað sæti yfir bestan árangur í sleggjukasti kvenna frá upphafi á Íslandi með kasti sínu upp á 63,96 metra. Guðrún átti lengst 60,14 metra fyrir tímabilið og hefur náð glæsilegum úrslitum í ár í bæði lóð-og sleggjukasti. Guðrún keppir fyrir Virginia Commonwealth University.
Hún á langbesta árangurinn á mótinu og verður hægt að fylgjast með úrslitum í rauntíma hér. Keppni hefst klukkan 14:30 á íslenskum tíma en þar sem Guðrún er í öðrum kasthopi má reikna með að keppni hjá henni hefjist um 15:30. Mótsmetið er 61,89 metrar og vallarmetið 64,55 metrar.
Erna Sóley Gunnarsdóttir (ÍR) er skráð til leiks í kúluvarpi á Tom Tellez Invitational í Houston, Texas í kvöld. Kvennakeppnin hefst eftir að karlakeppninni er lokið en hún hefst um 19:30 að íslenskum tíma. Hægt er að fylgjast með úrslitum í rauntíma hér. Svæðsmeistaramótið hennar fer fram næstu helgi en hún á þar tvo titla utanhúss, 2019 og 2022. Erna hefur kastað lengst 17,92 metra í ár en hún gerði það á svæðismeistaramóti sínu innanhúss í febrúar á þessu ári. Erna bætti Íslandsmet sitt utanhúss fyrir tveimur vikum er hún kastaði 17,39 metra og verður því spennandi að fylgjast með henni á næstu tveimur mótum.
Erna Sóley keppir fyrir Rice University og er hún á sínu síðasta ári.