Sumar og snjór á Akureyri

Það voru ÍR-ingar sem hlutu flest stig í heildarstigakeppni félagsliða á meistaramóti Íslands í dag. Þau hlutu 76 stig og unnu bæði kvenna og karla flokkinn. FH-ingar voru í öðru sæti með 53 stig og Blikar í því þriðja með 24 stig. Það var ÍR-ingurinn Dagbjartur Daði Jónsson og Glódís Edda Þuríðardóttir úr KFA sem hlutu flest stig samkvæmt stigatöflu Alþóða Frjálsíþróttasambandsins. Dagbjartur hlaut 1095 stig fyrir lengsta kast sitt í spjótkasti (79,57m) og Glódís hlaut 1088 stig fyrir grindahlaup sitt (13,46 sek.(+4,0)). Hún varð þrefaldur Íslandsmeistari um helgina en hún sigraði einnig 400 metra á 56,90 sekúndum og 400 metra grindahlaup á 1:01,36 mínútur.  ´

Það féllu tvö mótsmet á mótinu og var annað þeirra var grindahlaup Glódísar. Irma Gunnarsdóttir úr Breiðabliki sló mótsmetið í þrístökki með stökk upp á 12,89 metra. Sveit ÍR setti aldursflokkamet í 4x100m boðhlaupi 20-22 ára flokki þegar þær komu í mark á 47,22 sekúndum.

Íslenska frjálsíþróttafólkið okkar í Bandaríkjunum streymdi til landsins eftir að háskóla tímabilið þeirra lauk til þess að keppa á meistaramótinu. 

Dagbjartur Daði Jónsson úr ÍR var með glæsilega kast seríu í spjótkasti karla. Hann sigraði keppnina á nýju persónulegu meti og kastaði lengst 79,57 metra, annar var Sindri Hrafn Guðmundsson úr FH með 74,99 metra. Þeir komu beint frá Bandaríska háskólameistaramótinu þar sem Dagbjartur lenti í öðru sæt og Sindri í fimmta sæti. Guðmundur Hólmar Jónsson úr UFA var síðan þriðji með kast upp á 59,20 metra.

Í 1500 metra hlaupi karla var það Baldvin Þór Magnússon sem var einnig að koma frá Bandaríkjunum og sigraði á tímanum 4:01,20 mínútum. Íslandsmet hans í greininni er 3:40,74 mínútur. Það var gaman að sjá þennan unga og efnilega hlaupara keppa á sínum heimaslóðum og verður spennandi að fylgjast með honum í sumar.

Erna Sóley Gunnarsdóttir úr ÍR kom beint frá hitanum í Texas í snjóinn á Akureyri. Hún lét þó veðrið lítið trufla sig og sigraði kúluna með yfirburðum og mældist lengsta kast hennar 16,00 metrar. Í öðru sæti var Rakel Ósk Dýrfjörð Björnsdóttir úr KFA með 10,54 metra og ekki skammt á eftir var liðsfélagi hennar úr KFA Glódís Edda með kast upp á 10,53 metra

ÍR- ingurinn Guðni Valur Guðnason sigrði kringlukast keppnina með kast upp á 61,60 metra. Mímir Sigurðsson var annar með 55,56 metra og Tómas Gunnar Gunnarsson Smith var þriðji með 45,35 metra en þeir keppa báðir fyrir FH.

Hilmar Örn Jónsson úr FH var töluvert frá sínu besta í gær. Hann sigraði sleggjukast karla þó örugglega með 70,57 metra. Annar var Vilhjálmur Árni Garðarsson úr ÍR með kast upp á 54,28 og Jón Bjarni Bragason úr Breiðabliki var þriðji með 46,21.

Í 100 metra hlaupi kvenna var það Helga Margrét Haraldsdóttir úr ÍR sem bar sigur úr býtum en hún er a koma hrikalega sterk til baka úr meiðslum. Hún hljóp undanrásirnar á nýju persónulegur meti, 12,47 sekúndur og í úrslitunum kom hún í mark á 12,56 sekúndum. Í öðru sæti var Vilhelmína Þór Óskarsdóttir úr Fjölni á tímanum 13,10 sekúndum og var sjónarmun á undan þriðja sætinu. Í þriðja sæti var Silja Björg Kjartansdóttir úr ÍR sem hljóp einnig á 13,10 sekúndum. 

Íslandsmethafinn í 100 og 200 metra hlaupi, Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir úr ÍR sem sigraði 200 metra hlaup kvenna á 24,03 sekúndum. Í öðru sæti var Tiana Ósk Whitworth úr ÍR á tímanum 24,64 sekúndur og í þriðja sæti var Helga Margrét Haraldsdóttir einnig úr ÍR á tímanum 24,95. 

Hjá körlunum var það Íslandsmethafinn í 200 metra hlaupi, Kolbeinn Höður Gunnarsson úr FH sem sigraði bæði 100 og 200 metra hlaupin. Kolbeinn kom í mark á tímanum 10,89 sekúndum í 100 metra hlaupinu, í öðru sæti var Kristófer Þorgrímsson úr FH á tímanum 11,23 og Ísak Óli Traustason úr UMSS var í því þriðja á tímanum 11,27 sekúndum.

Í 200 metra hlaupinu sigraði Kolbeinn á tímanum 21,61 sekúndu, í öðru sæti var Jóhann Björn Sigurbjörnsson á 22,15 sekúndum og í því þriðja var Kormákur Ari Hafliðason úr FH á tímanum 22,31 sekúndu.

Heildarúrslit mótsins má finna hér.