Styttist í val á Evrópubikar

Evrópubikar landsliða verður haldin dagana 19.-20. júní í Stara Zagora í Búlgaríu. Mótafyrirkomulagið er með þeim hætti að keppt er í fjórum deildum; ofurdeildinni, 1., 2. og 3. deild. Síðasti dagur til að sýna árangur er 10.júní.

Ísland er í annarri deild ásamt tólf öðrum löndum. Keppt er í tuttugu greinum í karlaflokki og tuttugum greinum í kvennaflokki. Hvert land sendir einn keppenda í hverja grein og fást tólf stig fyrir fyrsta sætið, ellefu stig fyrir annað sætið og svo koll af kolli. Þrjú lið komast upp um deild og keppa þá í 1. deildinni eftir tvö ár.

Fyrir tveimur árum síðan átti sér stað hinn magnaði atburður þegar Ísland vann til gullverðlauna í 3. deild Evrópubikarkeppni landsliða sem fram fór í Skopje í Norður Makedóníu. Með sigrinum komst Ísland upp í 2. deildina en aðeins eitt lið fór upp. Eftir harða baráttu við Serbíu, sem var mun sterkara lið, náði Íslenska liðið frábærum árangri og þar með sigri. Lokaniðurstaðan var því 430 stig fyrir Íslands og 427 fyrir Serbíu.

Markmið okkar á mótinu er að halda sætinu okkar í annarri deildinni en það eru þrjú neðstu sætin sem detta niður um deild.