Íslenska landsliðið náði glæsilegum árangri á Norðurlandameistaramótinu í Kaupmannahöfn um helgina. Liðið vann samtals þrjú gullverðlaun, fjögur silfurverðlaun og tvö bronsverðlaun. Einnig voru sett tvö Íslandsmet á mótinu. Kolbeinn Höður Gunnarsson (FH) bætti sex ára gamla metið sitt í 200m hlaupi er hann kom í mark á tímanum 20,91 sek. Irma Gunnarsdóttir (FH) bætti Íslandsmet í þrístökki kvenna er hún stökk 13,40m en metið átti Sigríður Anna Guðjónsdóttir og var það orðið tæplega 26 ára gamalt. Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir (ÍR) náði lágmarki inn á EM U23 ára í 200m hlaupi er hún kom í mark á tímanum 23,98sek.
Við eignuðumst þrjá Norðurlandameistara um helgina. Daníel Ingi Egilsson (FH) stórbætti sig í þrístökki og stökk lengst 15,98m. Daníel átti áður 15,49m sem er jafnfram Íslandsmetið innanhúss. Sindri Hrafn Guðmundsson (FH) varð Norðurlandameistari í spjótkasti með kasti upp á 76,40m. Guðni Valur Guðnason (ÍR) varð Norðurlandameistari í kringlukasti karla með kasti upp á 63,41m.
Önnur verðlaun:
Dagbjartur Daði Jónsson | ÍR | Silfur | Spjótkast | 75,38m
Daníel Ingi Egilsson | FH | Silfur | Langstökk | 7,53m
Hilmar Örn Jónsson | FH | Silfur | Sleggjukast | 73,28m
Kolbeinn Höður Gunnarsson | Silfur | 100m | 10,29V
Mímir Sigurðsson | FH Brons | Kringlukast | 54,81m
Kolbeinn Höður Gunnarsson | FH | Brons | 200m | 20,91sek
Sjö Íslendingar úr NM hópnum eru svo á leið til Bergen í Noregi á Trond Mohn Games sem fara fram 3. júní. Kolbeinn Höður fer í 100m og Guðbjörg Jóna keppir í 200m hlaupi, Guðni Valur og Mímir kasta kringlu, Hilmar Örn kastar sleggju, Daníel Ingi fer í langstökk og Irma Gunnarsdóttir í þrístökk.
Þrír Íslendingar á lokamóti NCAA
Þrír Íslendingar komust í úrslitakeppni bandaríska háskólameistarmótsins (NCAA Championships) sem fer fram í Austin, Texas dagana 7.-10. júní. Forkeppni fyrir mótið fór fram í síðustu viku og skiptist hún í vestur- og austurkeppni. Vesurkeppnin fór fram í Sacramento í Kaliforníu og austurkeppnin í Jacksonville í Flórída. Í austurkeppninni stórbætti Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir sinn persónulega árangur og kastaði 65,42m aðeins ellefu sentímetrum frá Íslandsmeti Elísabetar Rut Rúnarsdóttur. Guðrún varð í fjórða sæti í austurkeppninni sem tryggði henni farmiða til Austin. Í Vestukeppninni var Íslandsmethafinn í greininni, Elísabet Rut, á meðal keppenda. Hún varð í níunda sæti með 63,75m og á því einnig sæti í úrslitakeppninni í Austin. Erna Sóley Gunnarsdóttir náði að tryggja sér síðasta úrslitasætið í vesturkeppninni í kúluvarpi kvenna er hún lenti í 12 sæti með 17,13m.
Baldvin Þór Magnússon keppti í 1500m og 5000m hlaupi í austurkeppninni. Baldvin kom 17. í mark í 1500m hlaupinu á tímanum 3:46,08 mín og 27. í mark í 5000m hlaupinu á tímanum 14:10,55 mín. Kristján Viggó Sigfinnsson (Ármann) varð 37. í hástökki með 2,04m. Þeir komust báðir því miður ekki áfram í úrslitakeppnina.