Á næstunni fer af stað keppni á svonefndri Stökkmótaröð 30 ára og eldri í atrennulausum stökkum og hástökki með atrennu. Mótaröð þessi varð til í framhaldi af því að vorið 2021 var haldið slíkt mót í Keflavík. Í vor á þessu ári bættist síðan við mót hjá UÍ Smára í Varmahlíð og nú í vetur bætast við tvö mót, annað í Reykjavík hjá Fjölni og hitt á Selfossi hjá HSK. Til þessara móta er stofnað í þeim tilgangi að auka á nýjan leik áhuga á keppni í atrennulausu stökkunum sem og að fjölga þeim mótum sem standa til boða fyrir íþróttafólk á aldrinum 30 ára og eldri.
Fyrsta mótið á þessum vetri verður fimmtudaginn 27. október hjá Fjölni en nánari upplýsingar um það mót er að finna í mótaskránni. Annað mótið verður í nóvember eða desember á Selfossi, þriðja mótið undir lok apríl 2023 í Varmahlíð og síðasta mótið verður svo í Keflavík í lok maí 2023.
Atrennulausu stökkin sem um er að ræða eru hástökk án atrennu, langstökk án atrennu og
þrístökk án atrennu. Keppni í þessum greinum var mjög vinsæl í eina tíð og áttu Íslendingar þá marga afreksmenn sem voru á heimsmælikvarða svo sem Vilhjálm Einarsson, Sigurð
Matthíasson og Flosa Jónsson.