Á morgun fer fram hið árlega Vormót HSK á Selfossvelli. Það eru 113 keppendur skráðir og margt af okkar fremsta fólki eru þar á meðal. Styrktaraðili mótsins gefur 100.000 kr inneign fyrir Íslandsmet í fullorðinsflokki og sigurvegarar fá gjafapoka. Keppni hefst klukkan 17:00 og henni lýkur um 20:30. Keppendalista, tímaseðil og úrslit má finna hér.
Kolbeinn Höður Gunnarsson er skráður til leiks en hann átti stórkostlegt innanhússtímabil þar sem hann setti tvö Íslandsmet, í 60m og 200m hlaupi innanhúss. Kolbeinn mun opna tímabilið í bæði 100m og 300m hlaupi um helgina. Kolbeinn var aðeins fimm hundruðustu frá Íslandsmeti Ara Braga Kárasonar í 100m hlupi á síðasta ári og er það met í stórhættu á þessu tímabili miðað við formið sem Kolbeinn sýndi á innanhúss tímabilinu. Anthony Vilhjálmur Vilhjálmsson (Ármann) hleypur bæði spretthlaupin en hann sýndi frábært form á síðasta ári og hljóp best 10,93 í 100m hlaupi og 21,86 sek í 200m hlaupi. Í 300m hlaupi verður einnig Ívar Kristinn Jasonarson sem átti einnig frábært innanhússtímabil og á besta tíma skráðann í 300m hlaupi á mótinu. 100m hlaup karla hefst klukkan 18:00 og 300m hlaupið klukkan 19:00.
Í kringlukasti kvenna eru þær Kristín Karlsdóttir (FH) og Hera Christensen (FH) skráðar til leiks. Kristín á best 53,53 metra frá árinu 2020 sem er þriðja lengsta kast kvenna á íslandi frá upphafi. Hera hefur þó kastað lengst íslenskra kvenna í ár, 49,23 metra sem er hennar persónulegi besti árangur. Hera mun reyna við lágmark inn á EM U20 sem er 47,50 en hún hefur í tvígang kastað yfir þá lengd en hvorug mótin voru Global Calendar mót. Karlamegin eru þeir Mímir Sigurðsson (FH) og Ingvi Karl Jónsson (FH) skráðir til leiks. Mímir hefur kastað lengst 55,97 metra í ár og á hann lengst 62,08 metra. Ingvi á best 53,40 metra sem er einnig hans persónulegi besti árangur. Kringlukast kvenna er fyrsta grein mótsins og hefst klukkan 17:00 og karlakeppnin hefst klukkan 18:00.
Dagbjartur Daði Jónsson (ÍR) opnaði spjótkast tímabilið sitt á glæsilegu 78,56 metra kasti í Portúgal í vor og verður hann á meðal keppenda á mótinu. Hann á best 79,57 metra sem hann kastaði á MÍ á Akureyri árið 2021. Örn Davíðsson (Selfoss) mun opna tímabilið sitt í greininni á morgun en hann átti frábæra endurkomu á síðasta ári og kastaði lengst 70,89 metra en hann á lengst 75,96 metra frá árinu 2012.
Í langstökki kvenna eru þær Irma Gunnarsdóttir og Birna Kristín Kristjánsdóttir skráðar til leiks. Irma átti stórkostlegt innanhússtímabil í bæði lang- og þrístökki. Húnn stökk lengst 6,36 metra í langstökki sem er annað lengsta stökk íslenskrar konu innanhúss og bætti Íslandsmetið innanhúss í þrístökki með stökk upp á 13,36 metra. Birna átti stabílt innanhúss tímabil, stökk lengst 6,11 metra og er stefnan hennar í sumar EM U23 lágmark sem er 6,25 metrar. Fleiri íþróttamenn ætla að freista þess að ná lágmarki á EM U20 og U23. Elías Óli Hilmarsson (FH) mun freista þess að ná lágmarki á EM U20 í sumar en lágmarkið er 2,10m og á hann best 2,07m. Arndís Diljá Óskarssdóttir mun freista þess að ná lágmarki á EM U20 í spjótkasti sem er 48,00m og á hún best 46,26 metra.