Sterkir keppendur á MÍ 15-22 ára

Meistaramót Íslands 15-22 ára fer fram næstu helgi á Selfossvelli. Mótið hefst klukkan 10 báða dagana. 212 keppendur frá 25 félögum víðs vegar um landið eru skráðir til keppni. Sigurliðið í fyrra í samanlagðri stigakeppni allra flokka var ÍR. Búast má við sterkri og spennandi keppni í ár þar sem á meðal keppenda er hluti af fremsta frjálsíþróttafólki Íslands og keppendur af EM, HM og NM í flokki unglinga frá því síðasta sumar.

Á meðal keppenda eru Kristján Viggó Sigfinnson, Ármanni. Kristján er þrátt fyrir ungan aldur besti hástökkvari landsins og er ríkjandi Íslandsmeistari í hástökki bæði innanhúss og utanhúss. Kristján keppir í hástökki og spjótkasti um helgina.

Fjölþrautarkonan Irma Gunnarsdóttir, Breiðabliki. Irma varð Norðurlandameistari U23 í sjöþraut síðasta sumar og keppti nýverið á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi fyrir Íslands hönd. Irma er skráð í sjö greinar um helgina 100m, 100m grind, langstökk, þrístökki, kúluvarpi, kringlukast og spjótkast.

Elísabet Rut Rúnarsdóttir, ÍR. Elísabet er aðeins 16 ára gömul en bætti nýverið Íslandsmetið í sleggjukasti. Hún er ekki aðeins sú besta í greininni hér á landi heldur er hún einnig ein sú besta í heiminum undir 18 ára. Hún mun keppa í sleggjukasti um helgina.

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, ÍR, sem varð Evrópumeistari í 100 metra hlaupi í flokki stúlkna 16-17 ára og Ólympíumeistar ungmenna í 200 metra hlaupi síðasta sumar. Guðbjörg er einn fremsti spretthlaupari Íslands og á hún Íslandsmetið í 200 metra hlaupi utanhúss og 60 metra hlaupi ásamt Tiönu Ósk. Guðbjörg fékk gull á Smáþjóðaleikunum fyrr í sumar í 100 og 200 metra hlaupi. Guðbjörg keppir í sömu greinum um helgina.

Dagbjartur Daði Jónsson, ÍR. Dagbjartur mun keppa í spjótkasti um helgina sem er hans aðalgrein. Hann er í hörku formi þessa dagana og fékk nýverið gull á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallandi þar sem hann bætti einnig aldursflokkamet 20-22 ára.

Thelma Lind Kristjánsdóttir, ÍR. Thelma er kringlukastari og á hún Íslandsmetið í greininni. Hún stundar nám og keppir út í Bandaríkjunum þar sem hún hefur verið að standa sig vel. Thelma keppir í kringlukasti og kúluvarpi um helgina.

Tiana Ósk Whitworth, ÍR. Tiana er eins sú fljótasta á landinu og er hún ríkjandi Íslandsmeistari í 100 metra spretthlaupi kvenna. Hún á einnig Íslandsmetið í 60 metra hlaupi ásamt Guðbjörgu Jónu og nokkur aldursflokkamet. Tiana keppir í 100m og 200m hlaupi um helgina.

Birna Kristín Kristjánsdóttir, Breiðablik, á aldursflokkametið í langstökki í flokki stúlkna 16-17 ára. Hún keppti á EM U18 sumarið 2018 og hefur náð lágmarki á EM U20 sem fer fram í sumar. Um helgina keppir hún í 100m, langstökki, hástökki og þrístökki.

Þórdís Eva Steinsdóttir, FH. Þórdís er ein sú fremsta á landinu í 400 metra hlaupi, hefur margoft keppt erlendis á alþjóðlegum mótum og hefur bætt fjölmörg aldursflokkamet á síðustu árum. Hún mun keppa í þremur greinum um helgina, 100m, 200m og 400m

Erna Sóley Gunnarsdóttir, ÍR. Erna Sóley á aldursflokkamet 18-19 ára og 20-22 ára í kúluvarpi. Erna keppir fyrir Rice University í Bandaríkjunum og hefur þar náð góðum árangri. Hún er í öðru sæti afrekalistans í kúluvarpi þar sem aðeins 20 sentimetrar eru í Íslandsmetið. Hún mun keppa í kúluvarpi, kringlukasti og spjótkasti um helgina.

Tímaseðil og keppendalista má sjá hér.