Sterkir keppendur á MÍ 15-22 ára

Meistaramót Íslands 15-22 ára fer fram um helgina í Kaplakrika. Mótið hefst klukkan 9:45 á laugardeginum og 9:30 á sunnudeginum. 232 keppendur frá 13 félögum víðs vegar um landið eru skráðir til keppni. Sigurliðið í fyrra í samanlagðri stigakeppni allra flokka var ÍR. Búast má við sterkri og spennandi keppni í ár þar sem á meðal keppenda er hluti af fremsta frjálsíþróttafólki Íslands og keppendur sem hafa unnið sér inn verðlaun á alþjóðlegum vettvangi í unglingaflokkum.

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, ÍR, keppir í 60 metra og 200 metra hlaupi. Hún á Íslandsmetið í 60 metra hlaupi ásamt Tiönu Ósk Whitworth og í 200 metra hlaupi á hún aldursflokkametið í flokki stúlkna 18-19 ára og 20-22 ára. Guðbjörg hefur náð frábærum árangri víðsvegar um heim en síðasta sumar bætti hún meðal annars Íslandsmetið í 100 metra hlaupi, varð fjórða í 200 metra hlaupi á EM U20 og var hluti af Íslenska liðinu sem komst upp um deild á Evrópubikar. Hún var svo valin frjálsíþróttakona ársins 2019.

Guðbjörg Jóna

Kristján Viggó Sigfinnsson, Ármanni, keppir í hástökki og langstökki. Það má segja að Kristján Viggó sé efnilegasti hástökkvari sem Ísland hefur átt. Hann á öll aldursflokkametin í hástökki bæði innanhúss og utanhúss upp að sínum aldursflokki sem eru piltar 16-17 ára. Það eru alls tíu met og það nýjasta bætti hann fyrir viku síðan þegar hann stökk 2,13 metra. Síðasta sumar varð hann Norðurlandameistari 19 ára og yngri í hástökki.

Kristján Viggó

Birna Kristín Kristjánsdóttir, Breiðabliki keppir í sex greinum um helgina. Þær eru 60 metra hlaup, 60 metra grindarhlaup, hástökk, langstökk, þrístökk og kúluvarp. Besti árangur hennar í langstökki utanhúss er 6,12 metrar og er það stúlknamet 16-17 ára. Stökkvi hún yfir sex metra um helgina mun hún bæta stúlknametið 18-19 ára innanhúss en það er 6,00 metrar og frá árinu 2003. Birna Kristín er fjölhæf og efnileg í mörgum greinum. Síðasta sumar keppti hún á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar og var hluti af íslenska landsliðinu á Smáþjóðaleikunum og Evrópubikar.

Birna Kristín

Glódís Edda Þuríðardóttir, UFA, keppir einnig í sex greinum um helgina; 60 metra hlaupi, 400 metra hlaupi, 60 metra grindarhlaupi, hástökki, langstökki og kúluvarpi. Glódís Edda æfir fyrir fjölþraut og er ein sú efnilegasta á landinu. Hún varð Íslandsmeistari í sjöþraut stúlkna 16-17 ára síðasta sumar og keppti á Evrópubikar í fjölþrautum. Hún var einnig hluti af íslenska landsliðinu sem komst upp um deild á Evrópubikar þar sem hún keppti í 400 metra grindarhlaupi og í 4×400 metra boðhlaupi.

Glódís Edda

Hér má sjá tímaseðil fyrir mótið og úrslit um leið og þau verða ljós.