Sterkari bæði í líkama og sál

Kolbeinn Höður Gunnarsson er spretthlaupari og keppir fyrir FH. Hann hefur verið einn fremsti spretthlaupari Íslands síðustu ár og jafnvel frá upphafi. Hann á Íslandsmetið í 200 metra hlaupi bæði innanhúss og utanhúss og er ofarlega á afrekalistanum í öðrum spretthlaupsgreinum. Hann hefur keppt á stórmótum unglinga og tveimur EM fullorðinna, 2013 og 2015. Kolbeinn mun keppa í fimm greinum á MÍ um helgina. 

Sterkari bæði í líkama og sál

Kolbeinn segir að árið sé búið að ganga ágætlega. „Innanhússtímabilið var mjög gott þar sem ég náði að bæta mig í 60 metrum sem er örugglega erfiðasta greinin mín af spretthlaupunum. Einnig bætti ég íslandsmetið í 200 metrum inni sem var mjög ljúft. Áherslan mín upp á síðkastið er að einfaldlega að verða meira alhliða hraustur. Sterkari bæði í líkama og sál,“ segir Kolbeinn Höður. 

Þegar Kolbeinn er ekki á æfingu segist hann nýta tímann í endurheimt. Hann hefur verið að vinna með annarskonar hreyfingu eins og Hot Yoga til að brjóta upp daginn og til þess að vinna í veikleikum á sama tíma. Dagsdaglega hámorfir hann á einhverja þætti sem hann er í skapi fyrir þann daginn. 

Reynir við fimmfaldan titil

„Stærsta stundin mín hingað til er örugglega þegar ég keppti á Evrópumeistaramóti fullorðinna árið 2015 í Prag. Þrátt fyrir að keppnin sjálf gekk ekkert allt of vel að þá var gríðarlega gaman að koma og keppa á móti þeim bestu í Evrópu og finna að maður er ekkert síðri íþróttamaður en þeir sem ég var búinn að fylgjast með í gegnum tíðina,“ sagði Kolbeinn um eftirminnilegasta afrekið. 

Um markmið fyrir MÍ um helgina segist Kolbeinn ætla að reyna við það að verða fimmfaldur Íslandsmeistari. Í 100, 200 og 400 metra hlaupi og í 4×100 og 4×400 metra boðhlaupi. „400 metrarnir verða örugglega erfiðastir af þessu þar sem ég er lítið búinn að vera einbeita mér að vegalengdum lengri en 200 metrum síðasta árið, “ segir Kolbeinn. 

Skynsemi og þrautsegja kemur manni langt

Aðspurður um það hvernig hann haldi sér einbeittum í gegnum langa keppnishelgi segir Kolbeinn: „Ef þú ert ekki hræddur við að legga inn þá gríðar miklu vinnu á veturnar í undirbúningstímabilinu þá verður keppnistímabilið svo mikið auðveldara. Það að vera mættur á mikilvægt mót í hrikalegu formi, vitandi það að þú ert besta eintakið af þér upp að þessum degi. Þá eru nokkur keppnishlaup á tveggja til fimm daga móti ekkert mál.“

„Vertu tilbúinn að upplifa mun fleiri ósigra og erfiði en velgengni og bætingar. Skynsemi og þrautsegja kemur manni langt í flestu, og frjálsar eru þar engin undantekning,“ segir Kolbeinn sem skilaboð til yngri iðkenda.