Sterk sleggjukastkeppni í Laugardalnum

Í gær fór fram Innanfélagsmót ÍR í Laugardalnum þar sem keppt var í hinum ýmsu kastgreinum. Á meðal keppenda var hluti af fremstu kösturum Íslands og þar á meðal tveir núverandi Íslandsmethafar.

Íslandsmethafinn í sleggjukasti, Hilmar Örn Jónsson úr FH, kastaði í gær 70,76 metra. Hann átti tvö köst yfir 70 metra og þrjú köst voru ógild. Íslandsmet Hilmars er frá árinu 2019 og er 75,26 metrar. Vilhjálmur Árni Garðarson, ÍR, keppti einnig í gær og var lengsta kast hans 59,78 metrar.

Hilmar Örn

Í sleggjukasti kvenna mættust þær tvær bestu frá upphafi, Elísabet Rut Rúnarsdóttir, ÍR og Vigdís Jónsdóttir, FH. Vigdís bætti Íslandsmetið fyrst árið 2014 og bætti það svo átta sinnum í viðbót þar til Elísabet Rut tók það af henni í fyrra. Vigdís náði því svo til baka í byrjun júní þegar hún kastaði 62,38 metra. Í gær hafði Elísabet Rut betur með aðeins níu sentimetrum. Elísabet kastaði 61,58 metra og Vigdís 61,49 metra. Spennandi verður að fylgjast með þeim á Meistaramóti Íslands sem fram fer eftir rúmar fjórar vikur. Þá verður Íslandsmeistaratitill í húfi og ljóst að titillinn gæti fallið öðruhvoru megin.

Í kringlukasti karla sigraði Mímir Sigurðsson, FH, á nýju persónulegu meti, 51,38 metrar. Hjá konunum sigraði Katharina Ósk Emilsdóttir, ÍR, með 42,18 metra kast sem var einnig persónulegt met.

Hér má sjá öll úrslit mótsins.