Sterk keppni á Meistaramóti Íslands um helgina

Um helgina, 13. – 14. mars fer fram Meistaramót Íslands í frjálsíþróttum. Mótið fer fram í Laugardalshöll og hefst klukkan 11:00 á laugardag á riðlakeppni í 60 metra hlaupi. Fremsta frjálsíþróttafólk landsins verður samankomið og mun keppa um 24 Íslandsmeistaratitla í einstaklingsgreinum. Alls eru um 160 keppendur skráðir til keppni frá tólf félögum.

Enn gilda þær reglur að áhorfendur eru ekki leyfðir á frjálsíþróttamótum.

Íslandsmet í 60m hlaupi?

Það verður skemmtileg barátta í 60 metra hlaupi karla þar sem FH-ingurinn Kolbeinn Höður Gunnarsson verður á meðal keppenda. Kolbeinn er einungis þremur brotum frá Íslandsmeti Einars Þórs Einarssonar sem er 6,80 sekúndur. Ásamt honum verða meðal annars þeir Birgir Jóhannes Jónsson, ÍR, og Sveinbjörn Óli Svavarsson, UMSS. Birgir á best 7,03 sekúndur en hann átti í upphaf tímabilsins 7,29 sekúndur. Sveinbjörn á best 7,04 sekúndur og hefur hlaupið fimm sinnum undir 7,10 sekúndur á þessu tímabili. Eftir tveggja ára fjarveru vegna veikinda mun Skagfirðingurinn Jóhann Björn Sigurbjörnsson hefja sitt tímabil á þessu móti. Jóhann Björn á best 6,93 sekúndúr frá Stórmóti ÍR fyrir tveimur árum.

Í kvenna keppninni er það Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, ÍR, sem á besta tímann en hún er búin að hlaupa gríðarlega vel á þessu tímabili.  Hún bætti eigið Íslandsmet í 60 metra hlaupi og hljóp á tímanum 7,46 sekúndur. Það er Blikinn Birna Kristín Kristjánsdóttir sem á næst besta tímann, 7,73 sekúndur. Þriðji besta tímann á Hildigunnur Þórarinsdóttir, 8,82 sekúndur.

Freista þess að ná lágmörkum

Mörg alþjóðleg mót eru framundan meðal annars Evrópumeistaramót U23, U20 og U18 ásamt Heimsmeistaramóti U20, U18 ára. Margir keppendur á þessu móti eru hársbreidd frá lágmarki og ætla að freista þess að ná því um helgina. 

Þrír einstaklingar eru að reyna við lágmörk í hástökki. Eva María Baldursdóttir og Kristján Viggó Sigfinnsson eru bæði fædd árið 2003 og eru nú þegar komin með lágmark á EM U20 og eru aðeins einum sentimetri frá lágmarki á HM U20. Eva keppir fyrir HSK/Selfoss og á best 1,81 metra og Kristján keppir fyrir Ármann og á best 2,16 metra. FH-ingurinn Birta María Haraldsdóttir er fædd 2004 ætlar að freista þess að ná lágmarki á EM U18 sem er 1,76 metri. Birta átti frábærar tilraunir við lágmarkið á MÍ 15-22 ára fyrir tveimur vikum síðan en hún á best 1,73 metra. 

Birna Kristín Kristjánsdóttir er búin að fara á kostum á þessu tímabili með aldursflokkamet í bæði langstökki og grindahlaupi. Hún er aðeins tveimur sentimetrum frá EM U20 lágmarki og sjö sentimetrum frá HM U20 lágmarki í langstökki en hún á best 6,08 metra innanhúss. Birna keppir í 60 metra hlaupi, 60 metra grindahlaupi og langstökki um helgina. 

Allt á uppleið hjá Hildigunni

Hildigunnur Þórarinsdóttir, ÍR, er búin að vera í miklu bætingarstuði á þessu tímabili en hún sigraði Reykjavíkurleikana í langstökki með frábæra persónulega bætingu upp á 6,07 metra. Þetta er aðeins þréttán sentimetrar frá lágmarki á EM U23. Þrátt fyrir að langstökk sé hennar aðalgrein hefur hún einnig verið að bæta sig í 60 metra hlaupi, 7,82 sekúndur og í þrístökki, 12,00 metra og mun hún keppa í þessum greinum um helgina. Það verður skemmtileg langstökkskeppni milli Hildigunnar, Birnu og Irmu Gunnardóttur þar sem þær eiga allar yfir sex metra.

Tímaseðil og úrslit mótsins má finna hér.

Við mælum með að fylgjast vel með á Instagram og Facebook síðu sambandsins þar sem við ætlum að deila myndum, myndböndum og fleira frá mótinu.