Stefnir í hörku langstökkskeppni á RIG

Langstökkvararnir Kristinn Torfason FH og Þorsteinn Ingvarsson ÍR munu fá hörkusamkeppi á frjálsíþróttakeppni Reykjavíkurleikanna sem fer fram í Laugardalshöllinni þann 3. febrúar næstkomandi. Þeir munu þar etja kappi við fimm sterka erlenda keppendur.

Kristinn keppti á Stórmóti ÍR um síðustu helgi og stóð sig mjög vel, stökk þar lengst 7,55 m en besti árangur Kristins er 7,77 m innanhúss frá árinu 2011. Það er ljóst að Kristinn er í hörkuformi þessa dagana.

Besti árangur Þorsteins eru 7,79 m (+1,1 m/s) utanhúss 2010. Hann náði góðum árangri í fyrra er hann stökk 7,47 m á Meistaramóti Íslands innanhúss. Þorsteinn er nýkominn úr þriggja vikna æfingabúðum í Suður-Afríku og verður spennandi að sjá hvaða árangri hann nær á RIG.

Erlendu keppendurnir koma allir frá Norðurlöndunum. Þeir Andreas Carlsson og Jesper Hellström koma frá Svíþjóð, Benjamin Gabrielsen kemur frá Danmörku og Roni Ollikainen og Arttu Pajulahti frá Finnlandi. Þessir keppendur eiga allir svipaðan eða betri árangur en Kristinn og Þorsteinn og finnsku keppendurnir eiga báðir yfir 8 metra.

Ljósmyndari: Sportmyndir.is