Stefnan sett á persónulegt met

Irma Gunnarsdóttir verður í eldlínunni í Svíþjóð um helgina, 8.-9. júní, þar sem Norðulandameistaramót unglinga í fjölþrautum fer fram. Irma varð Norðurlandameistari 22 ára og yngri í fyrra og mun freista þess að verja titilinn um helgina. Síðustu ár hefur Irma verið ein fremsta fjölþrautakona landsins, hún á best 5401 stig í sjöþraut utanhúss og er hún í sjötta sæti íslenska afrekalistans frá upphafi.

Áhersla á hraða og sprengikraft

Irma í þrístökki á Smáþjóðaleikunum

Irma segir að undanfarnar vikur hafi æfingarnar gengið mjög vel. „Ég hef verið að leggja meiri áherslu á hraða og sprengikraft í vetur og það hefur komið mjög vel út, ég var líka að leggja auka áherslu á langstökks tækni í vor þar sem ég er búin að vera að æfa nýja tækni.“

Aðal markmiðið að bæta sinn persónulega besta árangur

„Það væri mjög gaman að verða aftur Norðurlandameistari eða allavega að lenda á palli. En aðal markmiðið er að bæta minn besta árangur.“

Tekur eina grein í einu

Sjöþraut er ekki einungis krefjandi líkamlega heldur einnig andlega. Það er margt sem þarf að ganga upp svo manni ná góðum árangi og segir Irma að til þess að halda einbeitingu út allan keppnisdaginn sé mjög mikilvægt að hugsa bara um eina grein í einu. „Ef ein grein fer ekki eins og maður ætlaði sér verður maður bara að gleyma henni og hugsa um næstu grein. Seinni dagurinn er samt alltaf erfiður því maður er farin að finna vel fyrir líkamanum. En þá finnst mér bara gott að gefa mér góðan tíma í upphitun og hlusta á góða tónlist til að koma mér í réttan gír.“

Norðurlandameistaratitillinn ein stærsta stundin

Irma er í íslenska landsliðinu og hefur mikla keppnisreynslu þrátt fyrir ungan aldur. Hún segist eiga margar góðar stundir í gegnum sinn feril en Norðurlandameistaratitilinn sem hún vann í fyrra stendur henni alltaf ofarlega.

Ekki gefast upp

Irma segist ekki eiga sér neina sérstaka fyrirmynd en heldur hins vegar mikið upp á þrautakonuna Katarinu Johnson-Thompson

Aðspurð um ráð til yngri iðkenda segir hún: „Ráðin sem ég myndi gefa yngri iðkendum er að vera dugleg að æfa og gera það sem ykkur finnst skemmtilegt að gera. Ekki gefast upp þótt eitthvað gangi ekki upp eins og þið viljið hafa það, það koma alltaf hindranir og maður verður að læra að komast yfir þær.“

Alls sendir Ísland sjö keppendur á mótið um helgina. Heildarlisti keppenda er:

Irma Gunnarsdóttir, Breiðablik – Sjöþraut 20-22 ára
Glódís Edda Þuríðardóttir, KFA – Sjöþraut 16-17 ára
Ari Sigþór Eiríksson, Breiðablik – Tugþraut 20-22 ára
Gunnar Eyjólfsson, UFA – Tugþraut 20-22 ára
Sindri Magnússon, Breiðablik – Tugþraut 20-22 ára
Dagur Fannar Einarsson, Selfoss – Tugþraut 16-17 ára
Jón Þorri Hermannsson, KFA – Tugþraut 16-17 ára