Í gær fór fram 75 ára afmælismót Selfoss, Selfoss Classic á Selfossvelli. Hápunktur mótsins var kringlukastskeppni á heimsmælikvarða þar sem heims- og Ólympíumeistarinn, Daniel Ståhl bar sigur úr býtum. Ståhl náði sínum ásbesta árangri og bætti vallarmet þjálfara síns, Vésteins Hafsteinssonar með kast upp á 69,27 metra. Æfingafélagi hans Simon Pettersson var annar með kast upp á 65,94 metrar sem er einnig hans ársbesti árangur. Íslandsmethafinn Guðni Valur Guðnason (ÍR) var þriðji með kast upp á 64,87 metra sem er hans ársbesti árangur.
Í sleggjukasti höfðu Svíarnir betur. Grete Ahlberg bætti sinn persónulega árangur með kast upp á 69,63 metra. Elísabet Rut Rúnarsdóttir (ÍR) kastaði 62,84 metra og náði því í sjöttu og síðustu tilraun. Hjá körlunum kastaði Ragnar Carlsson 77,00 metra og bætti einnig sinn persónulega árangur. Hilmar Örn Jónsson (FH) var ekki langt frá sínum ársbesta árangri en hann kastaði í gær 74,95 metra.
Í 100 metra hlaupi kvenna var það Hollendingurinn Naomi Sedney (FH) sem kom fyrst í mark á tímanum 11,51 sek. Í öðru sæti var Júlía Kristín Jóhannesdóttir (Breiðablik) á tímanum 12,21 og í þriðja sæti var Hildigunnur Þórarinsdóttir (ÍR) á tímanum 12,29 sek. Vindurinn var +6,1 í hlaupinu og því yfir leyfilegum mörkum.
Í 100 metra hlaupi karla var það Kolbeinn Höður Gunnarsson (FH) sem kom fyrstur í mark á tímanum 10,64 sek. Í öðru sæti var Anthony Vilhjálmur Vilhjálmsson (Ármann) á tímanum 10,83 sek. og Bergur Sigurlinni Sigurðsson í því þriðja á tímanum 10,97 sek. Vindurinn var +5,0 í hlaupinu og því yfir leyfilegum mörkum.