Spennandi keppni á Meistaramóti Íslands

Meistaramót Íslands í frjálsíþróttum fór fram um helgina í Laugardalnum. Nítján keppnisgreinar fóru fram á fyrri keppnisdegi og átján á þeim síðari. Tvö mótsmet voru sett á mótinu og bæði í sleggjukasti. Það voru FH-ingarnir Hilmar Örn Jónsson og Vigdís Jónsdóttir sem gerðu það. Hilmar Örn átti einnig stigahæsta afrek mótsins, 1093 stig. Í kvennaflokki var það Aníta Hinriksdóttir fyrir 800 metra hlaupið, 1021 stig.

Í heildarstigakeppni félagsliða var spennandi keppni milli ÍR og FH. ÍR sigraði að lokum með 76 stig og 14 gullverðlaun, fjórum stigum meira en FH en jafn mörg gull. ÍR sigraði bæði í karla- og kvennakeppninni með 34 stig og sjö gull í karlakeppninni og 42 stig og 7 gull í kvennakeppninni. Þrefaldur sigur hjá ÍR því staðreynd og voru ÍR-ingar að sigra þriðja árið í röð.

28. Íslandsmeistaratitill Arnars

Langhlauparinn Arnar Pétursson, ÍR, fékk tvö gull um helgina og bætti þar með Íslandsmeistaratitlum 27 og 28 við í safnið. Fyrra gullið kom í gær þar sem hann var eini keppandinn í 3.000 metra hindrunarhlaupi. Í 5.000 metra hlaupinu í dag fékk hann meiri samkeppni þar sem hann kom fyrstur í mark af sjö keppendum á tímanum 15:26,01 mínútum. Helsta markmið Arnars í sumar er Reykjavíkurmaraþonið í ágúst.

Sæmundur Ólafsson úr ÍR fékk einnig tvö gullverðlaun um helgina. Í 800 metra hlaupinu fagnaði hann sigri á tímanum 1:54,74 mínútum og í 1500 metra hlaupinu á 4:04,82 mínútum.

Bæði mótsmetin í sleggjukasti

Tvö mótsmet voru sett á Meistaramóti Íslands um helgina og komu þau bæði í sleggjukasti. Hilmar Örn Jónsson, FH, kastaði sleggjunni 73,42 metra og bar sigur úr býtum meðal þriggja FH-inga. Vilhjálmur Árni Garðason fékk silfur með 58,44 metra kast og Mímir Sigurðsson þriðji með 46,78 metra.

Kvennamegin var það Vigdís Jónsdóttir úr FH sem kastaði 59,67 metra. Rut Tryggvadóttir, ÍR, varð önnur með 52,09 metra kast og Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir, UMSB varð þriðja með 48,69 metra sem er bæting.

Hilmar Örn og Vigdís stunda bæði nám og keppa út í Bandaríkjunum. Hilmar er Íslandsmethafi í sleggjukasti. Hann setti það í maí þegar hann kastaði 75,26 metra. Vigdís er fyrrum Íslandsmethafi en Elísabet Rut Rúnarsdóttir bætti met hennar fyrr í sumar. Fyrrum Íslandsmet hennar og besti árangur er 61,77 metri.

Blikasigur í langstökki

Í langstökki fékk Breiðablik gull bæði í karla- og kvennaflokki. Birna Kristín Kristjánsdóttir fagnaði sigri með því að stökkva 5,76 metra. Hennar besti árangur er 6,12 metrar og er jafnframt aldursflokkamet 16-17 ára. Silfrið í dag fékk María Rún Gunnlaugsdóttir, FH með 5,70 metra stökk og bronsið Hildigunnur Þórarinsdóttir, ÍR með 5,48 metra.

Í karlakeppninni voru miklar sviptingar um gullið og lengi vel leit út fyrir sigur Ísaks Óla Traustasonar úr UMSS. Síðasta stökkið í keppninni átti hins vegar Arnór Gunnarsson, Breiðablik og reyndist það vera lengsta stökk dagsins. Fyrir stökkið var hann í öðru sæti en stal gullinu alveg í lokin með því að stökkva 6,88 metra. Það er það lengsta sem hann hefur stokkið en vindur var því miður yfir leyfilegum mörkum svo hann fær það ekki skráð sem perónulegt met. Silfrið var því Ísaks Óla sem stökk 6,81 metra. Í þriðja sæti var Juan Ramon Borges, Breiðablik með 6,55 metra stökk.

Kolbeinn hefndi fyrir 100 metra hlaupið

Í gær háðu FH-ingarnir Ari Bragi Kárason og Kolbeinn Höður Gunnarsson mikla baráttu um gullið í 100 metra hlaupinu. Það fór svo að Ari Bragi kom 2/100 úr sekúndu undan í mark. En í dag snerist taflið við og Kolbeinn bar sigur úr býtum í 200 metra hlaupinu. Rétt á eftir honum varð Ari Bragi og í þriðja sæti Jóhann Björn Sigurbjörnsson, UMSS. Tímatakan í hlaupinu klikkaði og því fékk enginn skráðan tíma.

Kolbeinn Höður og Ari Bragi

Í 200 metra hlaupi kvenna fékk Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, ÍR gull. Hún kom í mark á tímanum 24,51 sekúndu og sigraði nokkuð örugglega. Í öðru sæti varð Þórdís Eva Steinsdóttir, FH á 25,21 sekúndu og þriðja var Andrea Torfadóttir, FH á 25,28 sekúndu. Guðbjörg Jóna á Íslandsmetið í greininni og er hún að undirbúa sig fyrir EM U20 sem fram fer í Svíþjóð seinna í vikunni.

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir

Í 400 metra grindarhlaupi sigruðu Glódís Edda Þuríðardóttir, KFA og Árni Haukur Árnason, ÍR. Í kringlukasti sigruðu Guðni Valur Guðnason, ÍR og Kristín Karlsdóttir, FH. Í 3.000 metra hlaupi sigraði Fríða Rún Þórðardóttir, ÍR. Fríða Rún hefur verið framarlega í langhlaupum á Íslandi í tvo áratugi og hefur ekkert gefið eftir þrátt fyrir að vera 49 ára. Í hástökki sigraði hin sextán ára gamla Eva María Baldursdóttir, HSK/Selfossi. Hún stökk yfir 1,75 metra og jafnaði sinn besta árangur. Í 4×400 metra boðhlaupi sigraði sveit FH í karlaflokki og sveit ÍR í kvennaflokki. Sveit FH skipuðu Kolbeinn Höður, Trausti Stefánsson, Kormákur Ari Hafliðason og Hinrik Snær Steinsson. Sveit ÍR skipuðu Ingibjörg Sigurðardóttir, Björg Gunnarsdóttir, Dagbjört Lilja Magnúsdóttir og Aníta Hinriksdóttir.

Flest verðlaun um helgina hlaut María Rún Gunnlaugsdóttir, FH. Hún keppti í sex greinum og vann til verðlauna í þeim öllum. Tvö gull, þrjú silfur og eitt brons. 100 metra grind, spjótkast, hástökk, langstökk, 4x400m og kúluvarp.

Öll úrslit helgarinnar má sjá hér.