Spenna á fyrri degi MÍ

Fyrri degi á Meistaramóti Íslands lauk í dag þar sem keppt var til verðlauna í ellefu greinum. Mikil spenna ríkti í mörgum greinum þar sem oft mátti ekki miklu muna á milli fyrsta og annars sætis. Í stigastöðu félagsliða leiðir FH með 24 stig og sex gullverðlaun, í öðru sæti er ÍR með 18 stig og ein gullverðlaun og í því þriðja er Breiðablik með tíu stig og tvö gull.

Fyrirmyndir með gull í 60 metrum

Í 60 metra hlaupinu sigruðu Ari Bragi Kárason, FH og Hafdís Sigurðardóttir, UFA. Ari Bragi kom í mark á 6,98 sekúndum sem er hans besti tími í ár og var hann jafnframt sá eini sem hljóp undir sjö sekúndum í dag. Ari Bragi var því að bæta enn einum Íslandsmeistaratitlinum í safnið en hann hefur verið einn fremsti spretthlaupari Íslands síðastliðin ár. Í öðru sæti varð Dagur Andri Einarsson, ÍR, á 7,03 sekúndum og þriðji varð Ísak Óli Traustason, UMSS, á 7,05 sekúndum.

Hafdís Sigurðardóttir sem þekktust er sem langstökkvari og hefur meðal annars keppt á nokkrum stórmótum í þeirri grein, sýndi það í dag að hún er einnig frábær spretthlaupari. Hún sigraði í dag á 7,68 sekúndum sem er hennar besti tími í ár. Andrea Torfadóttir, ÍR, varð önnur í hlaupinu en hún kom í mark á sama tíma og Hafdís. Andrea bætti sig um 1/100 í hlaupinu. Bronsið fékk Agnes Kristjánsdóttir, ÍR sem bætti sig einnig en hún kom í mark á 7,82 sekúndum.

FH sigur í 400 metrum

Í 400 metra hlaupinu fengu FH-ingarnir Kormákur Ari Hafliðason og Þórdís Eva Steinsdóttir gullverðlaun. Þau sigruðru bæði örugglega þegar Kormákur kom rúmum tveimur sekúndum í mark á undan næsta manni og Þórdís rúmri sekúndu. Tími Kormáks var 48,61 sekúnda sem er aðeins 6/100 frá hans besta og tími Þórdísar var 56,33 sekúndur. Silfur- og bronsverðlaun í kvennahlaupinu hlutu ÍR-ingarnir Ingibjörg Sigurðardóttir og Agnes Kristjánsdóttir. Þetta voru önnur verðlaun Agnesar á mótinu en hún var sú eina sem vann til tveggja verðlaun á þessum fyrri degi. Í karlahlaupinu var Bjarni Anton Theódórsson, Fjölni, annar í mark og Hugi Harðarson, ÍR, þriðji.

Guðni með bætingu í kúluvarpi

Kringlukastarinn Guðni Valur Guðnason, ÍR, hefur verið að keppa í kúluvarpi í vetur og bætt sig ítrekað og hélt hann uppteknum hætti í dag. Hann sigraði með miklum yfirburðum þegar hann kastaði 18,60 metra en fyrir hafði hann kastað lengst 18,43 metra.

Í stangarstökki karla sigraði Ingi Rúnar Kristinsson, Breiðabliki, þegar hann stökk yfir 4,30 metra. Ísak Óli Traustason, UMSS, stökk yfir sömu hæð en gullið fór til Inga Rúnars þar sem hann þurfti færri tilraunir við hæðina. Báðir þessir kappar keppa í fjölþrautum og sitja þeir í 5. og 6. sæti afrekalistans í sjöþraut. Aðeins eitt stig skilur þá að þar að en Ingi Rúnar er ofar.

Í þrístökki karla sigraði Kristinn Torfason, FH, með stökk upp á 14,21 metra. Kristinn Torfason hefur verið einn besti stökkvari Íslands í meira en áratug og þyrfti líklegast stærðfræðing til þess að telja alla hans Íslandsmeistaratitla. Kristinn verður aftur á ferðinni á morgun þar sem hann keppir í langstökki. Í kvennaflokki sigraði einnig FH-ingur en það var Hekla Sif Magnúsdóttir með 11,63 metra stökk. Þetta var fyrsti Íslandsmeistaratitill Heklu í fullorðinsflokki.

Marþon hlaupari með gull í 1500 metrum

Í 1500 metra hlaupi sigraði Arnar Pétursson á tímanum 4:07,97 mínútum. Arnar keppir fyrir Breiðablik en hann er nýbúinn að skipta yfir í félagið eftir að hafa verið í ÍR síðustu ár. Arnar er þekktastur sem maraþon hlaupari en þar hefur hann sett stefnuna á Ólympíuleikana sem fram fara í sumar. Í kvennaflokki sigraði Elín Sóley Sigurbjörnsdóttir, FH, á tímanum 5:03,72 mínútum.

Í hástökki fékk Eva María Baldursdóttir, HSK/Selfoss gullverðlaun en hún stökk yfir 1,76 metra sem er jöfnun á hennar besta árangri. Í öðru sæti varð Birta María Baldursdóttir, FH, sem stökk 1,73 metra. Báðar þessar stelpur eru ungar að árum en Eva er á sautjánda aldursári og Birta því sextánda. Þær eru báðar mjög efnilegar og gætu því haldið áfram að berjast um Íslandsmeistaratitillinn næsta áratuginn og jafnvel lengur. Í þriðja sæti varð María Rún Gunnlaugsdóttir, FH, með 1,70 metra.

Hér má sjá öll úrslit dagsins og hefst keppni aftur á morgun klukkan 11:00 með langstökki kvenna