Á morgun, laugardag, fara fram Trond Mohn Games í Bergen í Noregi og eru sjö íslendingar á meðal keppenda á mótinu. Mótið er hluti að World Athletics Continental Tour Silver og er flokkað sem B mót sem veitir góð auka stig fyrir stöðu á heimslista fyrir komandi stórmót. Mótið er sýnt í beinni á NRK 1 og NRK2. Hægt er að fylgjast með úrslitum í rauntíma hér.
Kolbeinn Höður Gunnarsson (FH) keppir í 100m hlaupi karla en hann er í hörku formi og er sex ára Íslandsmet Ara Braga Kárasonar í greininni í mikilli hættu. Kolbeinn er búinn að hlaupa tvisvar sinnum undir Íslandsmetinu en vindur hefur alltaf verið yfir leyfilegum mörkum. Kolbeinn varð í öðru sæti í 100m hlaupi á Norðurlandameistaramótinu í Kaupmannahöfn um síðustu helgi þar sem hann kom í mark á tímanum 10,29 sek. (+2,4m/s). Hann bætti eigið Íslandsmet í 200m hlaupi er hann hljóp á tímanum 20,91 sek.
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir (ÍR) keppir í 200m hlaupi en hún náði lágmarki á EM U23 ára í fyrsta hlaupi tímabilsins á NM. Guðbjörg hljóp þar á tímanum 23,98 sek.
Irma Gunnarsdóttir (FH) keppir í þrístökki en hún bætti Íslandsmetið í greininni á NM með stökki uppá 13,40m.
Daníel Ingi Egilsson (FH) keppir í langstökki karla og er hann búinn að stökkva lengst 7,57m í ár sem er einnig hans besti árangur. Hann vann til gullverðlauna í þrístökki með risa bætingu upp á 15,98m og til silfurverðlauna í langstökki með 7,53m á NM.
Hilmar Örn Jónsson (FH) keppir í sleggjukasti karla og er hann búinn að kasta 74,11m lengst í ár. Hilmar vann til silfurverðlauna á NM þar sem hann kastaði 73,28m.
Guðni Valur Guðnason (ÍR) og Mímir Sigurðsson (FH) keppa í kringlukasti karla. Guðni er búinn að kasta lengst 63,56 í ár sem hann gerði á kastmóti í Svíþjóð. Mímir hefur kastað lengst 56,07m í ár sem hann gerði á innanhússkastmóti í Svíþjóð. Guðni Valur varð Norðurlandameistari i kringlukasti með 63,41m og Mímir vann til bronsverlauna með 54,81m.
Dagskrá íslensku keppendana:
Kolbeinn Höður | 100m | 15:10
Guðni Valur og Mímir | Kringlukast | 15:10
Irma | Þrístökk | 15:15
Kolbeinn Höður | 100m Úrslit | 17:28
Daníel Ingi | Langstökk | 17:30
Guðbjörg Jóna | 200m | 17:40
Hilmar Örn | Sleggjukast | 17:55
* Allar tímasetningar eru á íslenskum tíma