Stærsta mót ársins innanlands, Meistaramót Íslands fer fram í Kaplakrika um helgina, 25.-26. júní. Fremsta frjálsíþróttafólk landsins verður samankomið og mun keppa um 34 Íslandsmeistaratitla í einstaklingsgreinum. Hægt er að fylgjast með úrslitum í rauntíma hér en annars hvetjum við alla til þess að mæta á völlinn!
Það verður blönduð keppni í sleggjukasti í ár þar sem konur og karlar kasta á sama tíma og byrjar keppnin klukkan 13:00 á laugardag. Elísabet Rut Rúnarsdóttir (ÍR) er á meðal keppenda í sleggjukasti kvenna og er frábæru formi. Hún bætti eigið Íslandsmet í byrjun júní og kastaði 65,37 metra. Íslandsmethafinn í sleggjukasti karla, Hilmar Örn Jónsson (FH), er búinn að kasta 75,52 metra í ár en Íslandsmet hans í greininni er 77,10 metrar.
Guðni Valur Guðnason kastar kringlu á sunnudag klukkan 14:00. Guðni er búinn að kasta lengst 64,87 metra í ár sem hann gerði á Selfoss Classic. Íslandsmet Guðna í greininni er 69,35 metra sem hann setti í september árið 2020.
Baldvin Þór Magnússon (UFA) mætir ferskur frá Bandaríkjunum og keppir í 1500 metra hlaupi. Hann á Íslandsmetið í greininni sem er 3:40,74 mín. Baldvin er búinn að eiga frábært tímabil, komst í úrslit á HM í 3000 metra hlaupi í vetur og varð sexfaldur svæðismeistari MAC innan- og utanhúss á þessu tímabili. 1500 metra hlaupið hefst klukkan 15:40 á laugardag.
Í spjótkasti karla er Dagbjartur Daði Jónsson (ÍR) skráður til leiks. Spjótkastið byrjar klukkan 16:20 á laugardag. Dagbjartur átti flott tímabil í Bandaríkjunum í vor, varð svæðismeistari SEC og sjöundi á bandaríska háskólameistaramótinu. Hann er búinn að kasta 76,78 metra í ár en hann á best 79,57 metra.
Kúluvarparinn Erna Sóley Gunnarsdóttir (ÍR) er búin að kasta vel í ár og bætti Íslandsmetið utanhúss í mars með kast upp á 17,29 metra. Erna er með fjórða lengsta kast í Evrópu í U23 ára flokki og varð einnig svæðismeistari C-USA í vor. Kúluvarpið hefst klukkan 14:00 á sunnudag.
Hlynur Andrésson verður á meðal keppenda í 5000 metra hlaupi. Þetta verður fyrsta 5000 metra hlaupið hans í ár en hann á best 13:41,06 mín. Hlynur er eini Íslendingurinn sem er kominn með lágmark á EM í Munchen sem fer fram í ágúst en hann náði lágmarki í maraþoni í Dresden á síðasta ári. 5000 metra hlaupið hefst klukkan 14:40 á sunnudag.
Kristján Viggó Sigfinnsson (Ármann) stekkur hátstökk á laugardag klukkan 14:00. Kristján var með annað hæsta stökkið í heiminum í U20 ára flokki innanhúss í vetur með stökk sitt uppá 2,20 metra. Kristján er kominn með lágmark á HM U20 sem fram fer í Kólumbíu í ágúst og verður spennandi að fylgjast með honum stökkva á laugardag.
Aníta Hinriksdóttir (FH) mun opna utanhúss tímabilið sitt í bæði 800 og 1500 metra hlaupi. Aníta var búin að hlaupa á 2:05,20 mín. innanhúss í vetur í 800 metra hlaupi og hljóp 1500 metra hlaup á MÍ innanhúss á tímanum 4:41,45 mín. 1500 metra hlaupið hefst klukkan 15:50 á laugardag og 800 metra hlaupið hefst klukkan 15:35 á sunnudag.
Kolbeinn Höður Gunnarsson (FH) og Tiana Ósk Whitworth (ÍR) keppa bæði í 100 og 200 metra hlaupi um helgina. Kolbeinn hljóp á glæsilegum tíma á Smáþjóðameistaramótinu á Möltu í 100 metra hlaupi, 10,59 sek. (+0,1). sem er aðeins einu sekúndubroti frá hans besta. Íslandsmetið í greininni er 10,51 sek. Hann er búinn að hlaupa á 21,40 sek. (+1,9) í 200 metra hlaupi utanhúss í ár en hann á Íslandsmetið í greininni sem er 20,96 sek. Tiana er búin að hlaupa á 11,71 sek. (+0,7) í ár sem hún gerði í Kaupmannahöfn síðustu helgi. Hún á best 11,57 sek. sem er aðeins sekúndubroti frá Íslandsmeti Guðbjargar Jónu Bjarandóttur (ÍR). Í 200 metra hlaupi er Tiana búin að hlaupa á 24,25 sek. (+3,0) utanhúss í ár og á best 23,79 sek. utanhúss.
12:00 (lau) undanúrslitin 100m karla // 15:20 (lau) úrslit
12:50 (lau) undanúrslit 100m kvenna // 15:30 (lau) úrslit
11:00 (sun) undaúrslit 200m karla // 15:50 (sun) úrslit
12:00 (sun) undanúrslit 200m kvenna // 16:00 (sun) úrslit