Sindri annar eftir fyrri dag á NM U23 í fjölþrautum

Fyrri keppnisdegi á Norðurlandameistaramóti unglinga í fjölþrautum sem fram fer í Svíþjóð er lokið. Sjö Íslendingar eru meðal keppenda á mótinu auk þriggja sem keppa sem gestir í karlaflokki.

Irma Gunnarsdóttir sem í fyrra varð Norðurlandameistari 20-22 ára er í fimmta sæti eftir fjórar greinar með 2945 stig. Hún hefur verið nokkuð frá sínum besta árangri í flestum greinum nema í hástökki. Þar stökk hún 1,54 metra en á best 1,58 metra. Það stökk hún á sama móti í fyrra þegar hún náði sínum besta árangri í sjöþraut, 5401 stig. Efst hefur hún endað í fjórða sæti í dag, það var í 200 metra hlaupi þegar hún hljóp á 26,05 sekúndum.

Í tugþraut pilta 20-22 ára eiga Íslendingar þrjá keppendur. Þar er Sindri Magnússon efstur meðal Íslendingana í öðru sæti með 3391 stig eftir fimm greinar. Sindri hefur sigrað eina grein, það var 100 metra hlaupið þar sem hann hljóp á 11,22 sekúndum. Það var einnig stór bæting þar sem hann átti 11,57 sekúndur fyrir. Ari Sigþór Eiríksson er í þriðja sæti með 3264 stig. Ari Sigþór sigraði í langstökki með 6,89 metra stökk. Það er tveimur sentimetrum lengra en það besta sem hann hefur stokkið í þraut en lengst á hann 6,95 metra. Gunnar Eyjólfsson er fjórði með 3251 stig.

Í tugþraut pilta 16-17 ára keppa Dagur Fannar Einarsson og Jón Þorri Hermannsson. Eftir fimm greinar er Dagur Fannar í fimmta sæti með 3379 stig og Jón Þorri í því þrettánda með 3170 stig. Dagur Fannar er að standa sig frábærlega og hefur bætt sig í öllum greinum í dag nema í hástökki þar sem hann jafnaði sinn besta árangur.

Glódís Edda Þuríðardóttir keppir í flokki stúlkna 16-17 ára. Hún átti í erfiðleikum í sinni fyrstu grein í dag sem var 100 metra grindarhlaup. Fyrir þá grein fékk hún því engin stig. Hún hefur ekki látið það á sig fá og hélt áfram í gegnum næstu þrjár greinar dagsins. Hún er því með 2101 stig eftir daginn og er í tólfta sæti.

Í gestakeppninni í karlaflokki er Benjamín Jóhann Johnsen í fimmta sæti með 3499 stig, Andri Fannar Gíslason í níunda sæti með 3364 stig og Ísak Óli Traustason tíundi 3025 stig.

Hér má sjá heildarúrslit dagsins.

Hér má sjá myndbönd frá hlaupagreinum dagsins.