Seinni dagur á NM/Baltic U23

Seinni dagurinn á Norðurlanda- og Eystrasaltslandamótinu 20-22 ára fór fram í rigningu og kulda. Því voru aðstæður til bætinga ekki góðar. Sex íslenskir keppendur kepptu á fyrri degi en á þeim síðari kepptu Vigdís Jónsdóttir í sleggjukasti og Irma Gunnarsdóttir í langstökki.

Vigdís Jónsdóttir, Íslandsmethafi í sleggjukasti kvenna, kastaði sleggjunni lengst 57,63 metra og endaði hún í sjött sæti. Grete Ahlberg frá Svíþjóð sigraði með kast upp á 65,40 metra. Íslandsmet Vigdísar er 61,77 metrar.

Irma Gunnarsdóttir varð í fjórða sæti í langstökki. Hennar lengsta stökk var 5,79 metrar og kom í fimmtu tilraun. Emilia Kjellberg frá Svíþjóð stökk 6,13 metra og sigraði keppnina. Persónulegt met Irmu er frá því í vor þegar hún stökk 5,92 metra.