Sebastian Coe kjörinn forseti Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, IAAF

 Spennan var mikil í salnum á kosningaþingi IAAF í Peking í dag þegar kosið var í fyrsta sinn í sögu Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, IAAF, milli tveggja frambjóðenda til embættis forseta. Ræður frambjóðenda, Sergey Bubka og Sebastian Coe voru magnaðar og öllum ljóst að framtíð IAAF væri í góðum höndum hvor þeirra sem fengið keflið næstu fjögur árin. Sebastina Coe hlaut 115 atkvæði og Sergey Bubka 92 atkvæði. í kosningu til varaforseta hlaut Sergey Bubka 187 atkvæði eða um 90% atkvæða sem gerist vart betra. Bubka er formaður þróunarnefndar IAAF og gegnir veigamiklu hlutverki í samstarfi IAAF við sérsambönd aðildarþjóða. Í ræðu sinni fyrir kosningarnar áréttaði Sebastian að hann muni tryggja sérsamböndum stóraukna fjárhagslega aðstoð frá IAAF frá því sem verið hefur og í sama streng tók Bubka. Ljóst er því að tveir af fremstu frjálsíþróttamönnum sögunnar munu halda um stýri frjálsíþróttasamstarfsins næstu fjögur árin og mikils að vænta á komandi misserum og árum. 

FRÍ Author