Sannfærandi sigur hjá Sveinbjörgu í sjöþraut um helgina

Hún hóf keppni með því að koma í mark á 14,46 sek. í 100 m grindarhlaupi sem er hennar besti árangur. Sofia Johnsson frá Svíþjóð sem varð í 3. sæti í heildarkeppninni kom fyrst í mark á 14,43 sek. Sveinbjörg fór hæst allra keppenda í hástökki eða 1,74 m sem er reyndar 5 cm frá hennar besta í þraut. Kúlunni varpaði hún lengst allra eða 13,85 m, sem einnig er bæting hjá henni og bæting um 1,5 m í þraut. Fyrrnefnd Sofia átti besta tíman í 200 m hlaupi en Sveinbjörg bætti sinn árangur í þraut og kom í mark á 25,74 sek., aðeins 6/100 á eftir Sofiu. Eftir fyrri dag er Sveinbjörg með 3421 stig og 394 stiga forskot á Sofiu sem var í öðru sæti eftir fyrri dag og stefnir sýnilega í bætingu hjá henni.
 
Síðari dagurinn hefst á langstökki. Sveinbjörg lýkur því með stökki upp á 5,99 m sem er bæði bæting í þraut og besti árangur dagsins. Meðvindur var 2,2 m/sek sem er yfir löggildingu árangurs, en er löglegt í þraut. Forysta hennar er orðin 537 stig. Í spjótkastinu skilur á milli, þar sem Sveinbjörg þeytti því 38,55 m sem er persónulegt met hjá henni, en Sofia aðeins rúma 20 m. Frida Thorsås frá Noregi nýtti tækifærið og skaust í annað sætiðí heildarstigakeppninni með kasti upp á 35,68 m. Forskot Sveinbjargar er orðið 673 stig á Fridu og 884 stig á Sofiu og því aðeins formsatriði að ljúka þrautinni. En Sveinbjörg gefur ekkert eftir og bætir sinn árangur í þraut og kemur í mark á 2 mín. 20,50 sek. sem er hennar besti tími í greininni og lýkur keppni með 5723 stig sem er bæting hjá henni um 244 stig. Þetta er næst besti árangur Íslendings í þessari grein, 155 stigum frá Íslandsmeti Helgu Margrétar Þorsteinsdóttur sem hún setti í Kladno í Tékklandi árið 2009.

FRÍ Author