Sandra Pétursdóttir bætti íslandsmetið í sleggjukasti í 49,97 metra

Sandra Pétursdóttir 19 ára stúlka úr ÍR tvíbætti í kvöld íslandsmet kvenna í sleggjukasti á innanfélagsmóti ÍR á kastvellinum í Laugardal. Sanda bætti metið fyrst í annari umferð, kastaði 49,70 metra og bætti þá met Aðalheiðar Maríu Vigfúsdóttur Breiðabliki um 1 sm, en það var 49,69 metrar frá sl. ári.
Sanda bætti svo metið enn frekar í sjöttu og síðustu umferð þegar hún kastaði 49,97 metra.
Kastsería Söndru var mjög góð: 47,16-49,70-46,09-49,00-49,21-49,97.
 
Fyrrverandi íslandsmethafi, Aðalheiður María Vigfúsdóttir Breiðabliki varð í öðru sæti í keppninni í kvöld, kastaði 48,00 metra. Í þriðja sæti varð svo hin 16 ára María Ósk Felixdóttir ÍR, en hún kastaði lengst 36,62 metra, sem er nýtt meyjamet með 4 kg sleggju (15-16 ára), gamla metið í þeim aldursflokki átti Sandra Pétursdóttir, 34,9 metra frá árinu 2005. María tvíbætti það met reyndar, því hún bætti metið fyrst í 36,52 metra.
 
Sandra bætti eigin árangur í kvöld um 2,85 metra, en hún átti best 47,12 metra frá því fyrr í þessum mánuði, sem var íslandmeti í flokki 19-20 ára unglinga. Þetta er að sjálfsögðu einnig met í aldursflokki 21-22 ára, en metið þar var 49,40m (Kristbjörg Helga Ingvarsdóttir FH, 2007).
FRÍ óskar félagi hennar ÍR og þjálfara Pétri Guðmundssyni til hamingju með þennan glæsilega árangur.
 
Það er því útlit fyrir mjög spennandi sleggjukastkeppni í fyrstu grein seinni dags í Bikarkeppni FRÍ á laugardagsmorgun, en þar mætir Sandra þeim Aðalheiði Maríu Vigfúsdóttur Breiðabliki (49,69m) og Kristbjörgu Helgu Ingvarsdóttur FH (49,40m), en allar þessar konur geta bætt íslansmetið á laugardaginn.
 
Þetta er 11. og 12. íslandsmetið sem bætt er í fullorðinsflokkum utanhúss á þessu ári.
 

FRÍ Author