Reykjavíkurleikar 2021

Reykjavík International Games í frjálsum íþróttum hefst sunnudaginn 7. febrúar og fer mótið fram í Laugardalshöll eins og undanfarin ár. Leikarnir eru alþjóðlegt boðsmót en vegna heimsfaraldurs var ákveðið að taka ekki á móti erlendum keppendum.

Mótinu er skipt i þrjá mótshluta og fimm sóttvarnarhólf til þess að tryggja þær sóttvarnarreglur sem voru settar um mótahald.

Keppni hefst klukkan tólf og eru áhorfendur bannaðir á keppnina en mótið verður sýnt á RÚV klukkan fjögur.

Einum sentimetra frá HM U20 lágmarki

Það verður gaman að fylgjast með hástökkskeppninni á leikunum í ár en þau Eva María Baldursdóttir og Kristján Viggó Sigfinnsson eru búin að stimpla sig inn sem bestu hástökkvarar landsins. Þau freista þess að ná lágmarki á HM U20 ára en þau eru bæði aðeins einum sentimetra frá lágmarkinu. Eva María á best 1,81 metra utanhús og ásamt henni munu þær María Rún Gunnlaugsdóttir, Birta María Haraldsdóttir og Katrín Tinna Pétursdóttir stökkva en þær hafa allar stokkið yfir 1,70 metra. María Rún er ein fremsta þrautarkona landsins en keppir hún einungis í hástökki að þessu sinni, hún á best 1,76 metra.

Kristján Viggó byrjaði tímabilið vel og stökk hann 2,13 metra á fyrsta móti en hann á best 2,15 metra. Þrautarkappinn Benjamín Jóhann Johnson er hans eini keppinautur en hann á best 2,03 metra.

Spennandi 60m keppni

Kolbeinn Höður Gunnarsson keppir bæði í 60m og 200m hlaupi. Hann er í hörku formi og byrjaði tímabilið sitt á glæsilegri bætingu í 60m hlaupi og hljóp hann á 6,85 sekúndur en það er einungis átta hundruðustu frá lágmarki á EM. Sveinbjörn Óli Svavarsson, Guðmundur Ágúst Thoroddsen og Patrekur Andrés Axelsson eru einnig meðal keppenda í 60m hlaupi karla. Sveinbjörn er búinn að vera í miklum bætingar ham og því spennandi að fylgjast með þeirri keppni. 

 Íslandsmethafinn í 60m hlaupi kvenna, Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir mun einnig taka þátt í bæði 60m og 200m hlaupi en hún deilir metinu sínu með Tíönu Ósk Whitworth. Guðbjörg er í frábæru formi og ætlar að freysta þess að ná EM lágmarki. Í 60m hlaupi hlaupa einnig þær Rut Sigurðardóttir og Melkorka Rán Hafliðadóttir en þær eiga báðar undir átta sekúndum

Í 200m hlaupi eru sex konur skráðar og er Þórdís Eva Steinsdóttir þar á meðal en hún hefur einnig verið að hlaupa vel. Guðbjörg hljóp í fyrra undir 24 sekúndum og varð hún önnur íslenskra kvenna til að afreka það og er hungur í henni að ná íslandsmetinu í greininni en það er í eigu Silju Úlfarsdóttur.

Guðni ætlar sér 19 metra

Íslandsmethafinn í kringlukasti, Guðni Valur Guðnason, verður í kúluvarpshringnum á morgun. Hann er hörku kúluvarpari þrátt fyrir að kringlukast sé hans helsta grein. Hann á best 18,60 metra innanhús og ætla sér að brjóta 19 metra múrinn. Auk þess munu  Kristján Viktor Kristinsson, Sigursteinn Ásgeirsson, Mímir Sigurðarson og Tómas Gunnar Gunnarsson Smith spreyta sig og eigum við von á spennandi keppni.

Blönduð keppni í langstökki

Í langstökkinu eru átta skráðir til leiks og er spáð jafnri og spennandi keppni. Karlamegin er það Kristinn Torfason sem á lengsta stökkið en með honum stökkva þeir Ísak Óli Traustason, Gunnar Eyjólfsson og Gylfi Ingvar Gylfason. Í kvennaflokki er það Birna Kristín Kristjánsdóttir sem á lengsta stökkið og ásamt henni stökkva þær Hildigunnur Þórarinsdóttir, Irma Gunnarsdóttir og Svanhvít Ásta Jónsdóttir

Maraþonhlaupari spreytir sig á 800m

Arnar Pétursson er margfaldur Íslandsmeistari í langhlaupum en ætlar að þessu sinni að spreyta sig á 800 metra hlaupi. Ásamt honum munu þeir Kjartan Óli Ágústsson, Hlöðver Jóhannsson og Valur Elli Valsson en Kjartan á besta árangurinn.

Það verður jöfn og spennandi keppni í kvennaflokki en það eru þær Sara Mjöll Smáradóttir og Iðunn Björg Arnaldsdóttir sem eiga besta tímann en munar aðeins einum hundraðasta á þeirra besta tíma. Einnig munu þær Elín Sóley Sigurbjörnsdóttir og Guðný Lára Bjarnadóttir hlaupa.

 Hér má finna tímaseðil og úrslit mótsins.