Ragnheiður, Þorsteinn og Þráinn kjörin heiðurfélagar FRÍ

Á Frjálsíþróttaþingi í Hafnarfirði voru þrír af lykil liðsmönnum frjálsíþróttahreyfingarinnar kjörnir heiðursfélagar FRÍ.

Mögulegt væri að rita langa ritgerð um framlag þeirra til frjálsíþrótta en að þessu sinni verður þessi stutta greinargerð að duga um hvert og eitt þeirra. 

Ragnheiður Ólafsdóttir

Ragnheiður Ólafsdóttir frjálsíþróttaþjálfari hefur nú nýlokið löngum og einstaklega farsælum ferli sínum sem yfirþjálfari frjálsíþróttadeildar FH, en vel er þekkt gott gengi deildarinnar undir stjórn Heiðu. Ragnheiður hefur í störfum sínum náð að styðja mikinn fjölda afreksfólks til stórafreka svo eftir hefur verið tekið. Þá hefur Ragnheiður verið boðin og búin til að aðstoða í keppnisferðum og æfingabúðum FRÍ og þannig miðlað af sinni mikilsverðu reynslu til komandi kynslóða. Ragnheiður hefur einnig  stýrt verkefnum bæði á sviði unglinga- sem landsliðsmála fyrir hönd FRÍ.

Þorsteinn Þorsteinsson

Það er með þakklæti sem FRÍ gerir Þorstein Þorsteinsson að sínum heiðursfélaga. Þorsteinn hefur sinnt mikilsverðu starfi innan stjórna og nefnda FRÍ í áratugi. Síðustu árin hefur Þorsteinn leitt störf frjálsíþróttadómara á Íslandi sem formaður Dómaranefndar. Ófáir dómarar hafa notið námskeiða Þorsteins sem hann hefur haldið víða um land undanfarin ár og Þorsteinn starfað sem yfirdómari á helstu mótum hér á landi.

Þráinn Hafsteinsson

Þau eru ófá hlutverkin sem Þráinn Hafsteinsson hefur tekið að sér innan frjálsíþróttahreyfingarinnar frá því hann kynntist íþróttinni ungur austur á Selfossi. Hvar sem Þráinn hefur komið hefur geislandi áhugi hans og þekking á íþróttinni smitað útfrá sér. Þráinn átti stóran þátt í uppgangi frjálsíþróttastarfs á HSK svæðinu á sínum tíma og alþekkt er framlag Þráins í að endurreisa ÍR sem stórveldi í frjálsíþróttum. Fyrir FRÍ hefur Þráinn starfað í fjölda nefnda og ráða auk þess að taka þátt í landsliðsverkefnum í ýmsum hlutverkum s.s. sem landsliðsþjálfari.


Engilbert Olgeirsson úr HSK og Fríða Rún Þórðardóttir úr ÍR voru sæmd gullmerki FRÍ fyrir vel unnin störf í þágu FRÍ og frjálsíþrótta.

Engilbert Olgeirsson

Engilbert Olgeirsson er þekktur af sínum góðu störfum fyrir íþróttahreyfinguna jafnt í héraði sem á landsvettvangi. Engilbert hefur sýnt frjálsíþróttum áhuga í áratugi. Hann var liðtækur spretthlaupari á yngri árum, nú seinni árin hefur Engilbert verið einstaklega ötull við að hvetja yngri sem eldri frjálsíþróttamenn með skrifum sínum en ekki síst við að halda úti metaskrám fyrir alla aldursflokka.

Fríða Rún Þórðardóttir

Vart þarf að kynna nokkrum manni dugnað Fríðu Rúnar Þórðardóttur í sínu starfi í þágu frjálsíþrótta. Fríða hefur starfað í áratugi innan FRÍ og ÍR af einstakri eljusemi. Fríða hefur sinnt fjölda trúnaðarstarfa fyrir FRÍ, meðal annars sem varaformaður og formaður í fastanefndum sambandsins.


Eftirfarandi félögum var veitt silfurmerki FRÍ fyrir vel unnin störf í þágu íþróttarinnar.

Einar Haraldsson, HSK
G. Pétur Guðmundsson, ÍR
Helgi Björnsson, ÍR
Hörður Gunnarsson, Ármann
Ívar Benediktsson, íþróttafréttamaður
Kristján Þór Harðarson, Breiðablik
Lovísa Hreinsdóttir, ÚÍA
Rannveig Oddsdóttir, UFA
Örvar Ólafsson, Ármann
Unnur Sigurðardóttir, FH


Eftirfarandi félögum var bronsmerki FRÍ fyrir vel unnin störf í þágu íþróttarinnar.

Ómar Bragi Stefánsson, UMFÍ
Margrét Brynjólfsdóttir, HHF
Jóhann Ingibergsson, FH
Atli Guðmundsson, Ármann
Aðalheiður María Vigfúsdóttir, Breiðablik
Kristján Sigurgeirsson, Breiðablik
Guðmundur Nikulásson, HSK
Einar Bárðarson, Hengill Ultra 
Ingvar Sverrisson, ÍBR