Piltamet á seinni degi MÍ

Meistaramót Íslands fór fram í Kaplakrika um helgina og lauk í dag með fimmtán keppnisgreinum. Einn af hápunktum mótsins var piltamet Kristjáns Viggó í hástökki en einnig náðist góður árangur hjá mörgum öðrum keppendum. Eftir fyrri keppnisdag þá hafði FH forystu í stigakeppninni og hélt þeirri forystu út á seinni degi og sigraði með 54,5 stig og ellefu gullverðlaun. Í öðru sæti varð ÍR með 45,5 stig og fimm gullverðlaun og í þriðja sæti varð Breiðablik með 23 stig og fjögur gull.

Íslandsmeistaralið FH

ÍR með sterka byrjun

Fyrstu úrslit seinni keppnisdags urðu í 800 metra hlaupi. Þar sigruðu ÍR-ingarnir Sæmundur Ólafsson og Ingibjörg Sigurðardóttir. Með þessari sterku byrjun saxaði ÍR á FH í stigakeppninni. Sæmundur kom í mark á 1:56,35 mínútum og Ingibjörg á 2:16,87 mínútum sem er persónulegt met. Í öðru sæti hjá körlunum varð Kjartan Óli Ágústsson, Fjölni og í því þriðja varð Hjörtur Ívan Sigurbjörnsson, Breiðablik. Í kvennaflokki varð Elín Sóley Sigurbjörnsdóttir, FH, önnur og Fríða Rún Þórðardóttir, ÍR, þriðja.

Piltamet í hástökki

Hástökkvarinn Kristján Viggó Sigfinnsson úr Ármanni hélt velgengi sinni áfram og bætti piltametið í hástökki þegar hann varð Íslandsmeistari í dag. Kristján stökk yfir 2,15 metra og setti met í flokki pilta 16-17 ára. Fyrra metið átti Kristján sjálfur en það setti hann í janúar þegar hann stökk 2,13 metra og bætti þar með 23 ára gamalt met Einars Karls Hjartarsonar. Kristján Viggó hefur náð ótrúlegum árangri síðust mánuði og ár en hann á öll aldursflokkametin upp að sínum aldursflokki, síðasta sumar varð hann Norðurlandameistari 19 ára og yngri og nýlega varð hann annar á NM fulorðinna svo eitthvað sé nefnt.

Fjölþrautarfólk öflugt í grindarhlaupinu

Í 60 metra grindarhlaupinu var fjölþrautarfólk áberandi en öll sex verðlaunasætin fóru til keppenda sem keppt hafa í þraut. Í karlaflokki sigraði Ísak Óli Traustason, UMSS, á 8,42 sekúndum. Annar varð Einar Daði Lárusson, ÍR og í þriðja sæti varð Árni Björn Höskuldsson, FH sem bætti sig í hlaupinu. Í kvennaflokki sigraði María Rún Gunnlaugsdóttir, FH, á 8,82 sekúndum. Í öðru sæti varð Fjóla Signý Hannesdóttir, HSK/Selfoss og þriðja varð Birna Kristín Kristjánsdóttir, Breiðabliki.

María Rún var einnig á öflug í kúluvarpinu í dag þar sem hún bætti sinn besta árangur með því að kasta 12,82 metra og með því kasti varð hún Íslandsmeistari í greininni. Það sama var uppi á teningnum hjá Ísaki Óla í langstökkinu. Þar stökk hann lengst allra keppanda og vann til gullverðlauna með 6,90 metra löngu stökki. María og Ísak hlutu því bæði tvö gullverðlaun í dag en þau eru einnig nýkrýndir Íslandsmeistarar í fimmtarþraut og sjöþraut.

FH sigur í 200 metra hlaupi

Í 200 metra hlaupinu sigruðu FH-ingarnir Þórdís Eva Steinsdóttir og Ari Bragi Kárason. Þórdís Eva kom í mark á 24,84 sekúndum og var jafnframt sú eina sem tókst að komast undir 25 sekúndur. Í öðru sæti varð Agnes Kristjánsdóttir, ÍR og þriðja varð Arna Stefanía Guðmundsdóttir, FH. Arna Stefanía er að eiga flotta endurkomu eftir barneignir en hún er að keppa í fyrsta skipti í tvö ár. Sterkasta grein Örnu er 400 metra grindarhlaup þar sem hún vann til bronsverðlaun á EM U23 árið 2017.

Í karlaflokki var mikill spenna þar sem einungis munaði 1/100 úr sekúndu á milli fyrsta og annars sætis. Þar kom Ari Bragi í mark á 22,11 sekúndum en liðsfélagi hans úr FH, Kormákur Ari Hafliðason, varð á 22,12 sekúndum. Þriðji varð Dagur Andri Einarsson, ÍR á 22,48 sekúndum. Bæði Kormákur og Dagur voru að bæta sinn besta árangur.

Þórdís Eva

Hafdís Íslandsmeistari í langstökki

Í langstökki kvenna bætti Hafdís Sigurðardóttir, UFA, enn einum Íslandsmeistaratitlinum í safnið. Hún stökk lengst allra keppenda eða 6,14 metra. Í öðru sæti varð Birna Kristín Kristjánsdóttir, Breiðabliki og í þriðja sæti varð María Rún Gunnlaugsdóttir, FH.

Í 3000 metra hlaupinu sigruðu Andrea Kolbeinsdóttir, ÍR á 10:00,20 mínútum og Arnar Pétursson, Breiðabliki, á 8:42,46 mínútum sem er hans besti árangur. Í stangarstökki kvenna varð Karen Sif Ársælisdóttir, Breiðabliki, Íslandsmeistari með stökk yfir 3,30 metra.

Hafdís

Mótsmet í boðhlaupi

Í 4×200 metra boðhlaupinu settu sigursveitirnar í karla- og kvennaflokki báðar mótsmet. Í karlaflokki kom sveit FH fyrst í mark á 1:30,21 mínútu. Sveitina skipuðu Trausti Stefánsson, Kormákur Ari Hafliðason, Bjarni Páll Pálsson og Ari Bragi Kárason. Í kvennaflokki var það sveit ÍR sem varð Íslandsmeistari. Tími ÍR var 1:40,39 mínútur en sveitina skipuðu Andrea Torfadóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir, Dagbjört Lilja Magnúsdóttir og Agnes Kristjánsdóttir.

Hér má sjá öll úrslit mótsins.