Öflugir keppendur á RIG 2019

Reykjavík International Games 2019 í frjálsíþróttum fer fram á morgun, sunnudaginn 3. febrúar í Laugardalshöllinni. Mótið hefst klukkan eitt og verður í beinni útsendingu á RÚV en samt sem áður hvetjum við alla til þess að mæta á staðinn og fá stemninguna beint í æð. Á mótinu mun fremsta frjálsíþróttafólk Íslands mæta sterkum erlendum keppendum en alls er 31 erlendur keppandi frá sjö löndum.

Sterkasta 800 metra hlaup frá upphafi

Aníta Hinriksdóttir mun keppa í 800 metra hlaupi og mun hún fá hörkusamkeppni frá erlendum keppendum í sterkasta 800 metra hlaupi á Íslandi frá upphafi. Auk Anítu mun hin breska Shelayna Oskan-Clarke sem fékk silfur í 800 metra hlaupi á EM innanhúss árið 2017 en Aníta vann bronsverðlaun í sama hlaupi. Oskan-Clarke komst í úrslit í 800 metra hlaupi á EM utanhúss í Berlín 2018 og vann síðan bronsverðlaun á HM innanhúss í fyrra. Hún er einnig fjórfaldur breskur meistari. Oskan-Clarke á best 1:59,81 mín en Íslandsmet Anítu er 2:01,18 mín. innanhúss. Í hlaupinu taka einnig þátt sú írska Claire Mooney sem á best 2:01,61 mín og hin bandaríska Olga Kosichenko sem á best 2:02,92 mín. Mooney er írskur meistari innanhúss og Olga hefur keppt á bandaríska úrtökumótinu innanhúss og utanhúss.

Stefnan sett á nýtt Íslandsmet í 1500 metra hlaupi

Árið 2018 var frábært fyrir Hlyn Andrésson þar sem hann setti fjölmörg Íslandsmet og á morgun stefnir hann á að bæta enn einu Íslandsmetinu í safnið í 1500 metra hlaupi. Íslandsmetið á Jón Diðriksson og er það frá árinu 1980 þegar hann hljóp á 3:45,6. Persónulegt met Hlyns er 3:49,19. Hlynur mun fá góða samkeppni í hlaupinu þar sem þrír erlendir keppendur mæta til leiks sem allir hafa hlaupið hraðar en Íslandsmetið. Það eru þeir Archie Davis frá Bretlandi sem hefur hraðast hlaupið á 3:43,09 og þeir dönsku Nick Jensen sem á 3:44,00 og Andreas Lindgreen sem á 3:41,20.

Sigurvegari RIG 2018 í langstökki mættur aftur

Kristinn Torfason hefur verið einn besti langstökkvari Íslands síðastliðin áratug. Kristinn sigraði Reykjavík International Games árið 2018 gegn þremur sterkum keppendum frá Norðurlöndunum. Nú í ár mæta tveir langstökkvarar frá Bretlandi sem munu freista þess að sigra Kristinn, það eru þeir James Lelliott og Jack Roach. Besti árangur Kristins er 7,77 metrar en James Lelliott á 7,74 metra og Jack Roach 7,71 metra. Besti árangur allra þriggja er mjög svipaður og því má búast við jafnri keppni.

Guðbjörg Jóna í 60 metra hlaupi

Í 60 metra hlaupi fá íslensku stelpurnar hörku samkeppni frá fimm sterkum erlendum hlaupurum. Tveimur frá Bandaríkjunum, tveimur frá Danmörku og einni frá Bretlandi. Þær bandarísku eru Hannah Waller, sem á best 7,51s, varð fylkismeistari í spretthlaupi síðasta vetur og Leah Phillips var hluti af boðhlaupssveitinni sem setti landsmet í 4×200 metra boðhlaupi innanhús. Finette Agyapong á breska metið í 300 metra hlaupi og fékk gull í 200 metra hlaupi á EM U23 árið 2017. Besti tími er Finette Agypaong 7,35 sekúndur.  Íslendingar eiga einnig frábæra spretthlaupara sem gefa þessum erlendu ekkert eftir og þar má helst nefna Guðbjörgu Jónu sem varð Evrópumeistari U18 í 100 metra hlaupi og Ólympíumeistari ungmenna U18 í 200 metra hlaupi á síðasta ári. Besti tími Guðbjargar er frá því um síðstu helgi þegar hún hljóp á 7,53 sekúndum.

Mikil samkeppni í 60 metra hlaupi karla

Á meðal keppenda í 60 metra hlaupi karla eru tveir mjög sterkir hlauparar frá Bandaríkjunum og einn frá Bretlandi. Einn þeirra er hinn bandaríski Marcellus Moore sem er efstur á heimslistanum á þessu ári í 60 metra og 200 metra hlaupi innanhúss fyrir pilta yngri en 18 ára. Á síðasta ári bætti hann sig í 100 metra hlaupi þegar hann hljóp á 10,31 og sá tími skilaði honum öðru sætinu á heimslistanum fyrir pilta yngri en 18 ára. Besti tími Marcellus Moore í 60 metra hlaupi er 6,75 sekúndur. Sá Íslendingur sem á bestan tíma er Jóhann Björn. Hann er í góðu formi þessa dagana og bætti sig síðast á stórmóti ÍR þegar hann hljóp á 6,93 sekúndum fyrir tveimur vikum og gæti bætt sig enn meira gegn sterkum keppendum. Í hlaupinu verður einnig Ronnie Wells frá Bretlandi sem hefur hlaupið hraðast á 6,70 sekúndum eða hraðast keppenda á mótinu.

Ísland gegn Bandaríkjunum

Í haust var settur saman íslenskur boðhlaupshópur sem hefur æft markvisst saman í vetur. Markmiðið er að koma íslenskri boðhlaupssveit á stórmót og fyrsta verkefni sveitarinnar verður á RIG þegar Ísland tekur á móti Bandaríkjunum í 4×200 metra boðhlaupi. Íslenska karlasveitin samanstendur af Ara Braga Kárasyni, Íslandsmethafa í 100m, Kormáki Hafliðasyni, Ívari Kristin Jasonarsyni, Íslandsmeistara í 400m og Jóhanni Birni Sigurbjörnssyni, Íslandsmeistara í 100m og 200m. Í kvennasveitinni er Glódís Edda Þuríðardóttir, Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, Ólympíumeistari ungmenna í 200m, Melkorka Rán Hafliðadóttir og Þórdís Eva Steinsdóttir, Íslandsmeistara í 400m.

Hér má finna leikskrá fyrir mótið. Miðasala er í fullum gangi á tix.is Dagskrá, keppendalista og úrslit má sjá hér.