Óðinn Björn með silfur, Jón og Hrafnhild Eir með bronsverðlaun

Nú er keppni hafin á lokadegi Smáþjóðaleikana á Kýpur og fara íslensku keppendurnir vel af stað og hafa þegar tryggt sér þrenn verðlaun í fyrstu keppnisgreinunum í dag.
Óðinn Björn Þorsteinsson hlaut silfurverðlaun í kúluvarpi, varpaði 17,38 metra og Jón Ásgrímsson fékk bronsið, varpaði lengst 16,13 metra. Georgios Aresti frá Kýpur sigraði með 18,14 metrum.
 
Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir fylgdi eftir góðum árangri í 100m hlaupinu á þriðjudaginn og náði bronsverðlaunum í 200m hlaupi áðan, en hún kom í mark á 25,39 sek. (-0,3m/s). Hafdís Sigurðardóttir varð í 5. sæti í sama hlaupi á 25,60 sek.
 
Helga Margrét Þorsteinsdóttir hljóp vel í 100m grindahlaupi og setti persónulegt með 14,39 sek. (-0,9m/s) og hafnaði í 4.sæti.
Helga átti best 14,77 sek. í þessari grein. Linda Björk Lárusdóttir varð í 6. sæti í grindahlaupinu á 14,82 sek, sem er 11/100 úr sek. frá hennar besta árangri í greininni.
 
Þorbergur Ingi Jónsson varð í 4. sæti í 1500m hlaupi, aðeins 26/100 úr sek. frá bronsverðlaunum, en hann kom í mark á 4:00,09 mín. Stefán Guðmundsson varð í 6. sæti í sama hlaupi á 4:05,53 mín.
 
Trausti Stefánsson varð í 7. sæti í 200m hlaupi karla á 22,19 sek. ( 0,1m/s), sem er 13/100 úr sek. frá hans besta árangri.
 
Nú stendur yfir keppni í hástökki kvenna og eru Ágústa Tryggvadóttir og Helga Margrét Þorsteinsdóttir báðar búnar að stökkva yfir 1,72 metra. Ágústa er því þegar búin að bæta sinn besta árangur í þeirri grein, en hún átti best 1,70m.
 
Þær greinar sem eftir eru í dag eru, auk hástökks kvenna eru:: 5000m hlaup kvenna (Fríða Rún og Arndís Ýr), 10.000m karla (Kári Steinn), kúluvarp kvenna (Helga Margrét), þrístökk karla (Kristinn) og síðustu greinar mótsins eru síðan 4x100m og 4x400m boðlaup karla og kvenna.
 
Sjá nánar: www.cyprus2009.org.cy

FRÍ Author