Óðinn Björn kastaði yfir 60m og Aðalheiður 12 sm frá íslandsmeti

Óðinn Björn Þorsteinsson FH bætti sinn besta árangur í kringlukasti í gær, þegar hann kastaði 60,29 metra á 14. Coca Cola móti FH í Kaplakrika. Óðinn átti best 59,11 metra frá því fyrir skömmu. Óðinn er í 6. sæti á "all time" listanum frá upphafi, en hann þarf að bæta sig um 2,81 m til að komast hærra á þeim lista, en í 5. sæti listans er Magnús Aron Hallgrímsson með 63,09 metra. B-lágmarkið fyrir Ólympíuleikana er 62,50 metrar, en í gær var síðasti dagur til að ná lágmarki fyrir Ólympíuleikana í Peking í frjálsum. Það er því ljóst að þrír frjálsíþróttamenn munu keppa á Ólympíuleikunum að þessu sinni eða Ásdís Hjálmsdóttir, Bergur Ingi Pétursson og Þórey Edda Elísdóttir.
 
Annar í kringlukastinu var Örn Davíðsson FH kastaði 45,86 metra, sem er rúmlega einum metra lengra en hann hefur áður kastað. Þriðji varð svo Stefán Ragnar Jónsson Breiðabliki með 44,37 metra, sem er hans besti árangur í ár.
 
Þá var einnig keppt í sleggjukasti kvenna og þar sigraði Aðalheiður María Vigfúsdóttir Breiðabliki, kastaði 49,85 metra, sem er aðeins 12 sm frá íslandsmeti Söndru Pétursdóttur ÍR. Þetta er besti árangur Aðalheiðar, en hún átti íslandsmetið, 49,69 metra áður en Sandra bætti það í sl. mánuði. Þetta er jafnframt annar besti árangur í sleggjukasti kvenna frá upphafi, en Kristbjörg Helga Ingvarsdóttir FH á 49,82 metra og fór Aðalheiður því upp fyrir hana á "all time" listanum með þessu kasti. Kristbjörg Helga kastaði hinsvegar lengst 48,05 metra í gær.

FRÍ Author