Nýr verkefnastjóri ráðinn á skrifstofu FRÍ

Frjálsíþróttasamband Íslands hefur ráðið Magneu Dröfn Hlynsdóttur íþróttafræðing í starf verkefnastjóra á skrifstofu FRÍ. Magnea Dröfn var ráðin úr stórum og sérstaklega glæsilegum hópi umsækjenda. Er þeim hér með öllum þakkaður sýndur áhugi.

FRÍ er sérstaklega ánægt að fá Magneu Dröfn til liðs við sig á þessum uppgangstímum í starfi hreyfingarinnar. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Magnea mikla reynslu úr íþróttahreyfingunni. Hún hefur verið verkefnastjóri Jökulsárhlaupsins, á uppbyggingarskeiði þess undanfarin fjögur ár. Hún hefur komið víða við í félagsstörfum, iðulega sem leiðtogi. Magnea hefur auk þess þjálfað börn og unglinga í frjálsíþróttum við góðan orðstír hjá félögum innan þriggja héraðssambanda og þekkir þannig til frjálsíþróttastarfs bæði innan og utan höfuðborgarsvæðisins.

Magnea Dröfn mun flytja úr Þingeyjarsveit fyrir starfið en þar hefur hún undanfarið sinnt íþróttakennslu, íþróttaþjálfun auk þess að vera yfirlandvörður yfir sumartímann í Jökulsárgljúfrum.

Magneu bíða ærin verkefni á skrifstofu FRÍ. Þar mun hún meðal annars koma að verkefnastjórnun unglingamála og almenningshlaupa auk margvíslegra samskiptaverkefna.