Norðurlandamót eldri frjálsíþróttamanna í Huddinge

 
Á fyrsta keppnisdegi keppti Sigurður Haraldsson í kúluvarpi 80 til 84 ára. Sigurður kastaði 3kg kúlunni 10,26m og sigraði með miklu öryggi. Árni Einarsson keppti í kúluvarpi í flokki 75-79 ára og kastaði 4kg kúlunni 6,87m og lenti í 7 sæti. Óskar Hlynsson keppti í 100 metra hlaupi í flokki 45-49 ára.
Eftir eitt þjófstart og tvö ógild stört hófst mikil keppni um fyrsta sætið. Óskar lenti í öðru sæti en dró mikið á sigurvegarann í lokin og hefði aðeins þurft nokkra metra til viðbótar til að sigra í hlaupinu. Óskar hljóp á 12,08 sekúndum en sigurvegarinn var á 12,04.
Á laugardeginum, sem var annar keppnisdagurinn, var mikið um að vera. Sigurður Haraldsson keppti bæði í kringlukasti (1kg) og sleggjukasti (3kg). Hann kastað kringlunni 29,98 metra og sleggjunni 34,34 metra og sigraði með öryggi í báðum greinum. Árni Einarsson keppti einnig í kringlukasti (1kg) og sleggjukasti (4kg).
Hann kastaði kringlunni 24,73 metra og lenti í 7. sæti og sleggjunni kastaði hann 21,58 metra og lenti í 5. sæti.
Bogi Sigurðsson keppti í kringlukasti (1kg) og lenti í 9. sæti með kasti upp á 30,06 metra.
Jón H Magnússon keppti í sleggjukasti (4kg) og kastaði 42,36 metra lenti í 2. sæti en hann veitti sigurvegaranum
harða keppni. Jón Ögmundur Þormóðsson keppti í sleggjukasti (5kg). Hann kastaði 40,49 metra og lenti í 2. sæti.
Trausti Sveinbjörnsson keppti í 300m grindahlaupi og lenti í mikilli keppni um 3. sætið. Hann náði góðum endaspretti og kom í mark á tímanum 54,03 sekúndum. Finninn sem lenti í 4. sæti kom í mark á tímanum 54,10.
Markús Ívarsson keppti í 800m hlaupi þrátt fyrir að hafa ekki náð sér af meiðslum. Hann kom 5. í mark á tímanum 3:17,01 mínútum.
Óskar Hlynsson keppti í 200 metra hlaupi og átti annan besta tímann í undanúrslitunum eða 24,59 sekúndur.
Hann lenti síðan í 3. sæti í úrslitunum á tímanum 24,93 sekúndum, en þá var mótvindur -1,1 m/sek.
Á þriðja keppnisdegi keppti Sigurður Haraldsson í spjótkasti (400gr) og lóðkasti (5,45kg).
Hann var ekkert að breyta út af venjunni og sigraði í báðum greinunum. Spjótinu kastaði hann 22,43 metra og lóðinu 15,86 metra. Daninn sem var í 2. sæti í lóðkastinu kastaði 11,25 metra. Árni Einarsson keppti einnig í spjótkasti (500gr) og lóðkasti (7,26kg).
Hann kastaði spjótinu 14,23 metra og lenti í 9. sæti og lóðinu kastaði hann 8,86 metra og lenti í 5. sæti. Jón H Magnússon keppti í lóðkasti (7,26kg) og sigraði með kasti upp á 17,50 metra. Jón Ögmundur Þormóðsson keppti í lóðkasti (9,08kg) og var með forystu framan af. Í síðustu umferðinni skaust finnskur kastari fram úr honum þegar hann kastaði 17,22m. Jón kastaði lengst 17,09 metra og lenti í 2. sæti. Trausti Sveinbjörnsson keppti í 100 metra grindahlaupi og hafnaði í 2. Sæti á tímanum 20,89 sekúndum. Mótvindur var í hlaupinu.
Fjórði keppnisdagurinn er mánudagurinn 29. júní, en þá er keppt í kastþraut. Úrslitin úr henni verða birt hér þegar þau koma á vef mótshaldara. Samtals hafa íslendingarnir unnið til 13 verðlauna, 6 gull, 5 silfur og 2 brons.
 
 
 
Heildarúrlit frá mótinu er hægt að nálgast á heimasíðu mótsins: hér.
 
Fréttin er unnin af Friðriki Þór Óskarssyni.
 
Myndir frá mótinu er hægt að skoða á blogsíðu eldri frjálsíþróttamanna: http://fri35plus.blogcentral.is

FRÍ Author