NM unglinga í fjölþrautum í Kópavogi um helgina

Nú um helgina fer fram Norðurlandameistaramót unglinga 22 ára og yngri í fjölþrautum á Kópavogsvelli.
Búið er að setja mótið upp í mótaforritinu hér á síðunni, en alls eru 49 keppendur skráðir í mótið.
17 frá Svíþjóð, 13 frá Íslandi, 12 frá Finnlandi, 4 frá Noregi og 3 frá Danmörku.
Keppt er í þremur aldursflokkum í tugþraut karla og sjöþraut kvenna (17 ára og yngri, 18-19 ára og 22 ára og yngri).
 
Mótið hefst kl. 9:30 á laugardagsmorgun og stendur keppni til 17:05.
Á sunnudaginn hefst keppni kl. 10:00 og eru áætluð mótslok um kl. 17:30.
 
Í íslenska keppandahópnum eru m.a. Helga Margrét Þorsteinsdóttir íslandsmethafi kvenna í sjöþraut og verður spennandi að fylgjast með því hvort Helgu Margréti takist að slá metið um helgina, en hún stóð sig mjög vel á Smáþjóðaleikunum í síðustu viku og stórbætti árangur sinn í 100m grindahlaupi, spjótkasti og kúluvarpi.
Íslandsmet Helgu frá sl. ári er 5524 stig og ef allt gengur vel hjá henni um helgina er ekki ólíklegt að metið falli.
Metþaut Helgu: 14,92s-1,71m-12,87m-25,18s/5,57m-39,62m-2:19,08 mín.
Helga varð Norðurlandameistari unglinga á sl. ári í Finnlandi í flokki 17 ára og yngri með 5520 stig, sem er stúlknamet, en hún keppir nú í 18-19 ára aldursflokki með fullorðinsáhöldum.
 
Þá er Einar Daði Lárusson einnig í íslenska liðinu, en hann vann til silfurverðlauna á sama móti fyrir tveimur árum í flokki 17 ára og yngri. Einar Daði varð í 5. sæti í flokki 18-19 ára í fyrra og keppir hann aftur í þeim aldursflokki um helgina. Einar Daði er í góðu formi þessa daganna, en hann fótbrotnaði við æfingar í nóvember á síðasta ári, en hann hefur náð sér af þeim meiðslum og er því til alls líklegur um helgina á Kópavogsvelli.
 
Íslensku keppendurnir á mótinu eftir aldursflokkum eru:
 
20-22 ára (U23):
Haraldur Einarsson.
Fjóla Signý Hannesdóttir.
 
18-19 ára (U20):
Helga Margrét Þorsteinsdóttir.
Bjarki Gíslason, Börkur Smári Kristinsson og Einar Daði Lárusson.
 
17 ára og yngri (U18):
Dóróthea Jóhannesdóttir, María Rún Gunnlaugsdóttir og Sveinbjörg Zophoníasdóttir.
Gísli Brynjarsson, Ingi Rúnar Kristinsson og Kristján Viktor Kristisson. Þá keppir Jón Kristófer Sturluson sem gestur í þessum flokki, en hver þjóð má aðeins senda þrjá keppendur í hvern aldursflokk.
 
Í íslenska hópnum er ungt og upprennandi fjölþrautarfólk, sem fær nú tækifæri til að keppa á móti besta fjölþrautarfólki á Norðurlöndum í sínum aldursflokki. Þegar mótið var haldið í Hafnarfirði árið 1999 kom ung stúlka mjög á óvart í flokki 17 ára og yngri og sigraði með yfirburðum, en það var engin önnur en Carolina Klüft, en síðar átti eftir að verða yfirburðamanneskja í sjöþraut í heiminum í sinni grein, kanski sjáum við arftaka hennar á Kópavogsvelli um helgina?
 
Sjá nánar keppendalista og dagskrá fyrir mótið: www.mot.fri.is (NJCCE U23).
 

FRÍ Author