NM unglinga á Akureyri um helgina

Samhliða því að vera Norðurlandameistaramót, er þetta keppni milli landa, en Ísland og Danmörk eru með sameiginlegt lið, en hinar þjóðirnar eru með einn til tvo keppendur í hverri grein.
Meðal keppenda verður margt af efnilegasta frjálsíþróttafólki Íslands t.d. Sveinbjörg Zóphoníasdóttir og Helga Þorsteinsdóttir sem báðar stóðu sig mjög vel á HM 19 ára og yngri fyrr í sumar og voru báðar í úrslitum í sínum greinum.
Ungmennasamband Eyjafjarðar (UMSE) og Ungmennafélag Akureyrar (UFA) eru framkvæmdaaðilar mótsins fyrir hönd FRÍ. Mótið fer fram á hinum glæsilega nýja frjálsíþróttaleikvangi Akureyringa við Hamar en þar er öll aðstaða til fyrirmyndar og starfsfólk mótsins í góðri þjálfun eftir Landsmóti UMFÍ 2009. Norðurlandamótið fellur inn í dagskrá Akureyrarvöku og munu keppendur og fylgdarlið eflaust setja svip sinn á bæinn þessa daga.
Stærstu stuðningsaðilar mótsins eru Samherji og Íslandsbanki og með aðstoð þeirra og dyggum stuðningi Akureyrarbæjar er félögunum gert kleift að halda glæsilegt mót sem verður vonandi öllum aðstandendum til sóma.
Lokaatriði mótsins verður keppni milli Norðurlandanna í kirkjutröppuhlaupi sunnudaginn 29. ágúst þar sem brugðið verður á létta strengi eftir alvöruna.
 

 

Heimasíða mótsins hér.

FRÍ Author