NM öldunga – Heimsmet í höllinni í gær

Mótið hefur gengið mjög vel og er keppni lokið í Laugardalshöllinni, en keppni í lóðkasti stendur enn yfir í Reiðhöll Gusts í Kópavogi. Árangur hefur verðið mjög góður og féll m.a. eitt heimsmet í Laugardalshöllinni í gær, þegar hinn 71 árs gamli Carl-Erik Skramdal frá Svíþjóð stökk 1,57 metra í háskökki. Þetta er fyrsta heimsmetið sem fellur í nýju Laugardalshöllinni frá því hún var tekin í notkun í lok árs 2005.
Fjölmörg landsmet og Norðurlandamet féllu á mótinu um helgina, sem of langt mál yrði að telja upp hér.
 
Árangur íslensku keppendanna á mótinu hefur verið mjög góður og höfðu íslensku keppendurnir fengið samtals 35 gullverðlaun á mótinu um helgina, áður en keppni í lóðkastinu hófst núna eftir hádegið, en búast má við að þeim fjölgi en eftir lóðkastið.
 
Þetta er fjölmennasta frjálsíþróttamót sem fram hefur farið hér á landi innanhúss með erlendri þátttöku frá upphafi, en samtals voru 264 keppendur skráðir á mótið, þar af 193 erlendir keppendur.
 
Í kvöld verður svo lokahóf fyrir keppendur á Broadway, þar sem keppendur koma saman og fagna vel heppnuðu móti. Margir af erlendu þátttakendunum munu dvelja á Íslandi fram eftir vikunni og fara í skoðunarferðir um landið.
 
Úrslit í öllum keppnisgreinum eru komin inn í mótaforritið hér á síðunni, að undanskildum úrslitum í lóðkasti, en þau ættu einnig að vera komin inn innan tíðar. Einnig er hægt að skoða úrslit undir "NM Veteran 2008 indoor – Program and results" hér vinstra megin á síðunni

FRÍ Author