Norðurlandameistaramótið í Víðavangshlaupum fer fram sunnudaginn 5. nóvember við tjaldsvæðið og þvottalaugarnar í Laugardalnum í Reykjavík. Sterkir keppendur frá Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi mæta til leiks og etja kappi við okkar bestu hlaupara. Meðal þeirra verða Kári Steinn Karlsson, Andrea Kolbeinsdóttir og Baldvin Þór Magnússon.
Kári Steinn er fyrsti íslenski karlmaðurinn sem keppt hefur í maraþonhlaupi á Ólympíuleikum en hann tók þátt árið 2012 og hafnaði hann í 42. sæti af 100 keppendum.
Andrea Kolbeinsdóttir setti tvö Íslandsmet á árinu. Í byrjun árs sló hún Íslandsmet í 5000m innanhúss og í sumar sló hún Íslandsmet í 3000m hindrunarhlaupi á Evrópubikar í Póllandi.
Baldvin Þór Magnússon bætti Íslandsmetið í 10km götuhlaupi fyrir skemmstu og er það fimmta Íslandsmetið sem hann slær á árinu.
Víðavangshlaup eru fyrst og fremst sveitakeppni og í öllum flokkum má senda 6 hlaupara til keppni en 3 bestu innan sveitar telja til stiga. Keppt verður í 6 km og 9 km.
Tímaseðill:
09:30: Stúlkur U20, 6 km.
10:10: Piltar U20, 6 km.
10:50: Konur, 9 km.
11:40: Karlar, 9 km.
12:10: Almenningshlaup, 6 km.
Í beinu framhaldi af Norðurlandameistaramótinu verður haldið almenningshlaup, sem opið er öllum, þar sem hlaupurum gefst tækifæri á að hlaupa sömu braut, við sömu aðstæður og NM í víðavangshlaupum. Engin verðlaun verða veitt en það verður tímataka. Skráningargjald er 1500 kr. og fer skráning fram hér.
Hér er hægt að sjá mynd af hlaupaleiðinni.